BARÁTTA BER ALLTAF ÁVÖXT

Birtist í DV 16.06.15.
DV - LÓGÓUndir síðustu vikulok voru sett lög á verkfall aðildarfélaga BHM svo og hjúkrunarfræðinga. Höggið á þau sem staðið hafði í langvinnri verkfallsbaráttu - án launa og með tilheyrandi álagi - var hart. Ríkisstjórnin segir að enn sé hægt að semja eða þar til Gerðardómur hafi  verið skipaður 1. júlí næstkomandi og í greinargerð með bannlögunum segir að þar til niðurstöðu er skilað af hálfu dómsins um miðjan ágúst sé  einnig kostur að ná samningum.

Hvað þarf að breytast?

Hvert mannsbarn sem fylgst hefur með þessari deilu veit þó að án afstöðubreytingar ríkisstjórnarinnar mun enginn árangur nást við samningaborðið. Ríkisstjórnin lagði sig því miður undir straujárnið sem Samtök atvinnulífsins hafði hitað upp í samningum á almennum vinnumarkaði. Því miður höfðu aðildarfélög ASÍ fallist á tillögur atvinnurekenda hvað þetta snertir: Verði samið umfram það sem atvinnurekendur á almennum markaði  voru tilbúnir að semja um við viðsemjendur sína þá skulu allir samningar lausir og ófriður í landinu. Fyrir þessu lyppaðist ríkisstjórnin niður. Þess vegna hafa engir samningar náðst. Þess vegna er það afstaða ríkisstjórnarinnar sem verður að breytast.

Reiði og leiði

En er þá öll von úti, munu engir samningar nást á sjúkrahúsum Íslands eða við starfsfólk á sýslumannsskrifstofum eða öðrum starfssvæðium BHM? Því er til að svara að vonin er ekki úti einfaldlega vegna þess að barátta undangenginna vikna mun skila sér og er þegar farin að skila sér. Fyrir þessu hef ég sannfæringu.
Í umræðu á Alþingi var reiði í röðum stjórnarandstöðu og leiði í röðum stjórnarmeirihluta. Mér fannst ég kenna að flestum þætti þetta slæm niðurstaða og var athyglisvert að heyra formann allsherjarnefndar þingsins túlka lögin rúmt og á þann veg að gerðardómi bæri að horfa til allra átta og vera rýmri í niðurstöðum sínum en lagatextinn kvæði á um ef hann væri skoðaður þröngt og með nirfilsauga Samtaka Atvinnulífsins.

Leiðarljós Sjálfstæðiflokksins

Það er grafalvarlegt mál að vega að verkfallsréttinum. Hann er öryggisventill í lýðræðisþjóðfélagi. Ekki er gripið til þessa vopns nema við ýtrustu aðstæður. Margrét Thatcher, hin illvíga og óbilgjarna járnfrú breskra stjórnmála er löngu komin undir græna torfu. En í íslenskum þingsal vorum við minnt á að arfleifð hennar lifi góðu lífi í íslenska Sjálfstæðisflokknum. Formaður hans, Bjarni Benediktsson, sá ástæðu til að leggja sérstaklega lykkju á leið sína í umræðum á þingi í síðustu viku til að mæra Thatcher. Sjálfur minnist ég hennar sem fréttaskýrandi á valdstjórnarárum hennar hve mikið kapp hún lagði á að ganga á milli bols og höfuðs á samtökum launafólks. Slæmt er til þess að vita að íslenskir stjórnmálamenn vilji gera hana að leiðarljósi í störfum sínum.

Vafasamar dyggðir

Allt sem kenna mátti við samstarf og samvinnu var af hinu illa að áliti Thatchers en eigingjarnt brölt einstaklinga þótti henni lofsvert og þar með talin sjálf græðgin sem hún taldi til dyggða.
Auðvitað vitum við betur. Samtakamáttur og samvinna skiluðu Íslendingum og Norðurlöndunum öllum þeim ómældum  framförum sem urðu á öldinni sem leið og gerðu tuttugustu öldina að mesta framfaraskeiði sem mannkynssagan hafði þekkt.

Andstreymi í sögulegu samhengi

En andstæðingar þessarar hugsunar munu ekki hafa árangur sem erfiði ef við aðeins höfum þolinmæði til að setja tímabundið andstreymi í sögulegt samhengi. Ég er nefnilega sannfærður um að samstaða og barátta ber alltaf ávöxt. Hún geri það  á endanum.
Samfélaginu er nú öllu ljóst orðið að gegn kröfum launafólks sem lagði niður vinnu á þriðja mánuð verður ekki staðið til lengdar. Það er aðeins tímaspursmál hvenær orðið verður við kröfum þess.

Sendimenn á þingi

Það er hins vegar dapurlegt að Samtökum  Atvinnulífsins skuli hafa tekist  að spilla þessum samningum og fá sendimenn sína á Alþingi til að ganga erinda sinna  með því óheillaverki sem lögin á verkföllin eru.
En kemur dagur eftir þennan dag.

.   

Fréttabréf