Fara í efni

ALLT UPPÁ BORÐIÐ!

stækkunargler
stækkunargler

Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem hún styðst við er stjórnarandstaðan frá síðasta kjörtímabili.

Þá var það harðlega gagnrýnt, og mjög réttilega svo, að Icesave samningarnir færu leynt en yrðu þó lögfestir af Alþingi.

Nú fæ ég ekki betur skilið en svokölluð Stöðugleikaskilyrði, séu sama markinu brennd, meira og minna leynileg og það sem ekki skal leynt fara svo óljóst að fáir skilja.

Við kynningu á svokölluðum Stöðugleikaskatti í Hörpu á dögunum var sagt að Stöðugleikaskattur og Stöðugleikaskilyrði ættu að vera jafnverðgild fyrir ríkissjóð þegar upp væri staðið. Ég nefndi þetta í þingræðu um málið og óskaði eftir því að þingið yrði upplýst hvað lægi á bak við þessa staðhæfingu.

Snarlega var bent á að þetta væri reginmisskilningur. Stöðugleikaskilyrðin væru hin margrómaða tvenning, kylfan og gulrótin, og aldrei hefði verið gert ráð fyrir samasem merki á milli þeirra annars vegar og skattsins hins vegar - þrátt fyrir yfirlýsingarnar í Hörpu.

Nú er okkur sagt að Seðlabankinn eigi að fá vald til þess að að ganga frá málum þeirra sem kjósa að elta gulrótina, með öðrum orðum Seðlabankinn á að fá skattlagningarvald eða ígildi þess. Þetta hlýtur að orka tvímælis. Sé þetta ætlunin þurfa skilyrðin og vinnureglurnar að vera þeim mun skýrari og auðskiljanlegri.

Ég borga tekjuskatt, útsvar og fasteignagjöld. Þetta geri ég möglunarlaust og með ánægju svo lengi sem ég trúi því að skattarnir fari til góðra málefna. Kylfan er látin duga á mig en ekki gulrótin. Mér er ekki boðið upp á neinar samningaviðræður um þessar greiðslur. Þar eru skýrar reglur sem eiga að taka til allra.

Ég fæ ekki skilið hvers vegna hið sama á ekki að gilda um kröfuhafa í slitabúin, þ.e. vogunarsjóðina og áhættufjárfestana, ómóralskasta  fjárfestnigarfjármagn sem til er. Auðvitað eiga hrægammarnir  að greiða skatt samkvæmt sömu lögunum. Allir sem einn.

Og gleymum því ekki að 39% skattur er ekki hár skattur við þessar aðstæður.

Þegar það síðan bætist við að ívilnunarviðræðurnar virðast hafa í för með sér að koma eignarhaldi á bönkunum út fyrir landsteinana og skapa óvissu um stórfellt gjaldeyrisútstreymi  með ívilnunarsamningum þá gerast ýmsar spurningar áleitnar.  

Ég vek sérstaka athygli á umsögnum Lilju Mósesdóttur, hagfræðings og Indefence hópsins sem gagnrýna flækjustigið og vilja allt upp á borðið og alla undir sömu regnhlíf: http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/?ltg=144&mnr=786