MISSKIPTING OG BARNAHÚS RÆDD Í FÉLAGSMÁLANEFND EVRÓPURÁÐSINS

Farell small

Sl. þriðjudag og miðvikudag sat ég fund Félagsmála- og heilbrigðisnefndar Evrópuráðsins en hann fór fram í Chisinau, höfuðborg Moldóvu. Þangað var skemmtilegt og fróðlegt að koma en ekki síður var fundurinn áhugaverður og lærdómsríkur.

Fengnir höfðu verið fyrirlesarar um höfuðefni fundarins sem var stóraukin fátækt samhliða  vaxandi misskiptingu í ríkjum Evrópu. Þar þótti mér áhugaverðastur írskur maður, Fintan Farrell, sérfræðingur við stofnun sem á ensku nefnist European  Anti-Poverty Network (EAPN) http://www.eapn.eu/en. Þessi stofnun hefur verið til í aldarfjórðung og hefur  Fintan Farrell verið þar viðloðandi frá upphafi. Hann sýndi tölur og sannfærandi vísbendingar um vaxandi misskiptingu nánast alls staðar í Evrópu.

Farrel lagði áherslu á mikilvægi samábyrgðar og sagði að margar þjóðir sem áður hafi viljað loka sig af litu nú öðru vísi á málið og það af eigingjörnum ástæðum: Fátækt á einum stað þýddi nefnilega að bankað væri uppá á öðrum. Ef norðanverð Evrópa ætlaði ekki að fá fátæktina úr suðri inná eiginn gafl, yrði að stuðla að aukinni almennri velferð alls staðar.

Farið var yfir margvíslega staðla sem stuðst er við í samanburðarrannsóknum en Farrell lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að efna til umræðu um niðurbrot velferðarinnar sem væri fylgifiskur aukinnar misskiptingar - skýrslur og samþykktir væru góðra gjalda verðar en verkefnið væri að halda málinu vel vakandi í umræðu með það að markmiði að gripið verði til raunhæfra aðgerða.

Þessi umfjöllun fléttaðist inn í umræðu um evrópsk velferðarkerfi og skýrslu þar að lútandi og einnig um tillögu sem er í smíðum um aðgerðaáætlun. Þar er spurt hvort setja eigi lög um lágmarkslaun - í stað þess að stefna að því að öllum einstaklingum verði tryggð lágmarksframfærlsa. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.
Þingmaðurinn sem verkstýrir þessu síðastnefnda verkefni er frá Ítalíu og fékk áfangaskýrsla þingmannsins nokkra gagnrýni á fundinum - meðal annars frá minni hendi - fyrir að gera ekki nægilegan greinarmun á lágmarkslaunum annars vegar og réttinum til lágmaksframfærslu hins vegar.
Hugmyndin hjá þingmanninum ítalska um að dregið verði úr eða hreinlega hætt öllum opinberum millifærslum  (barnabótum og stuðningi af sambærilegum toga) svo viðkomandi einstaklingur fái aukið frelsi til að ráðstafa hinum nýju grunnlaunum sem yrðu hækkuð til samræmis við niðurskurð á félagslegum stuðningi. Valið gæti þá væntanlega staðið á  milli þess að fara á sólarströnd eða með barnið til tannlæknis. Ég setti málið ekki svona upp í umræðunni en hlustað hef ég á íslenskan þingmann stilla þessu svona upp.
Allt er þetta mikilvæg umræða og áhugaverðar upplýsingar sem ég mun kappkosta að koma á framfæri. Það er greinilegt að umræðan um vaxandi misskiptingu fer nú fram af auknum þunga enda er þessi þróun til aukins misréttis með réttu litin alvarlegum augum. ( Sjá umfjöllun mína um fund sömu nefndar frá því í mars: http://ogmundur.is/annad/nr/7426/ )

Síðari dag fundarins í Chisinau  var að uppistöðu til rætt um ofbeldi gagnvart börnum og vitundarvakningu sem Evrópuráðið hefur staðið fyrir um málefnið undanfarin fimm ár. Vitundarvakningin er hluti af svokölluðum Lanzarote samningi en hann kveður á um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðisofbeldi. Hér á landi hrintum við vitundarvakningu úr vör árið 2012 með sameiginlegu verkefni innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis og menntamálaráðuneytis, að frumkvæði innanríkisráðuneytis. Hluti af henni var meðal annars stuttmyndin Fáðu já, sem sýnd var í elstu bekkjum allra grunnskóla og í framhaldsskóla og Brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu sem fór inn í alla 2. bekki. Árangurinn var góður.

Lanzarote samningurinn hafði fleira í för með sér, þar á meðal mikilvægar lagabreytingar sem styrkja enn frekar vernd barna gegn hvers kyns ofbeldi. Við efndum einnig til viðamikillar ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota, í samráði við dómskerfið, lögreglu, fræðimenn og félagasamtök.
Bragi GuðbrandsÞess má geta að formaðurinn  í nefnd Evrópuráðsins sem sinnir þessum málum er Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu. Bragi hefur átt drjúgan hlut í frumkvöðlastarfi á sviði barnaverndar og vísa ég þar ekki síst í Barnahúsið svokallaða þar sem samþætt er  undir sama þaki umönnun til líkama og sálar annars vegar og yfirheyrslur hins vegar, í málum sem lúta að ofbeldi gegn börnum. Kjör Braga til formennsku er í mínum huga viðurkenning á framlagi Íslands og starfi Braga heima og heiman.

Íslenska Barnahúsið hefur frá stonfun, árið 1998, verið öðrum ríkjum fyrirmynd um hvernig eigi að taka á þessum málum. Fjölmargar sendinefndir hafa komið til Íslands til að kynna sér starfsemina. Svíar opnuðu sitt fyrsta Barnahús 2005, þau eru 30 talsins þar nú, Norðmenn 2007, þau eru tíu talsins, Danir 2013, þau eru orðin fimm, Finnar eru að opna á þessu ári og Grænlendingar og Færeyingar munu vera komnir með sitt barnahús.

Á fundinum var okkur sagt að nú væri verið að stofna Barnahús í Chisinau, höfuðborg Moldovu að íslenskri fyrirmynd og var það sérstaklega tekið fram. Á fundinum nefndu margir Ísland vegna mikilvægs og lofsverðs frumkvöðlastarfs sem haft hefði áhrif um alla Evrópu.

Sjá m.a. nánar:
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/5946/ 

http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27919      

http://www.dv.is/frettir/2012/1/24/ofbeldismennirnir-eru-allt-margir/

http://ogmundur.is/annad/nr/6168/

http://ogmundur.is/annad/nr/6139/

Fréttabréf