Fara í efni

LOFSVERT FRAMLAG SIGURÐAR JÓNASSONAR

Sigurður Jónasson
Sigurður Jónasson
Árið 1869 kom út í Englandi bókin On the Subjection of Women eftir enska heimspekinginn John Stuart Mill. 

Sigurður Jónasson (1863-1887) frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal þýddi bókina á íslensku og kom hún fyrst út að tilstuðlan Hins íslenska kvenfélags aldamótaárið 1900 undir heitinu Kúgun kvenna. Ritið var síðan gefið út 1997 og aftur árið 2003 hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi.

John Stuart Mill var að mörgu leyti á undan sinni samtíð, meðal annars hvað varðar réttindabaráttu kvenna og er jafnan litið á þetta rit sem eitt helsta grundvallarrit í vestrænni kvennabaráttu.

Með nokkrum sanni má einnig segja að þýðandinn, Sigurður Jónasson, hafi einnig verið á undan sinni samtíð því ungur að árum kom hann auga á mikilvægi boðskapar Mills og að honum yrði komið á framfæri við þjóð sína.

Sigurður dó ungur, drukknaði á 24. aldursári, er hann féll útbyrðis af skipi er hann var á leið í framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Þýðingarafrek hins unga manns er enn í minnum haft. Hann heyrði kall tímans og brást við því.

Ættmenni hans vinna nú að því að reisa minningarstöpul um Sigurð á Blönduósi í samvinnu við Blönduósbæ. Afhjúpun er ráðgerð 7. ágúst nk.

Ekki er ég í hópi ættmenna Sigurðar Jónassonar og ekki heldur formlegra aðstandenda þessa framtaks en svo gott finnst mér það að ég vil hérmeð vekja á því athygli og hvetja til stuðnings við það.  

Á eftirfarandi netslóð má sjá nánar um Sigurð og söfnunina og þá einnig upplýsingar um reikningsnúmer vilji fólk styðja framtakið með peningagjöf: http://kvenrettindafelag.is/2015/vid-minnumst-sigurdar-jonassonar-thydanda-kugun-kvenna/