Fara í efni

HEFÐARRÉTTUR TIL ÞÚSUND ÁRA

Auðlindir íslands
Auðlindir íslands

Þegar til stóð á síðasta kjörtímabili að setja gjald á veiðar umfram það sem kvótahafar gátu sætt sig við var kveðið upp ramakvein mikið og fram á völlinn þustu þeir sjálfir og talsmenn þeirra hrópandi: SKERÐIÐ EKKI EIGNARRÉTTINN! Nær heilagleikanum töldu menn sig ekki komast.
Þetta gerðist þrátt fyrir að fiskveiðilögin kveði skýrt á um eign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni. Í fyrstu grein þeirra laga segir: " Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."

Hugsun handhafa kvótans var sú að þar sem þeir hefðu haft veiðiréttinn á hendi í nokkur ár samkvæmt lögum frá Alþingi hefði þar með myndast hefðarréttur sem væri ávísun á eignarrétt þeim til handa. Með öðrum orðum, þrátt fyrir framangreint ákvæði fiskveiðilaga hefðu þeir í reynd eignast kvótann.

Í grein sem Kári skrifar hér á síðuna fjallar hann um kvótakerfið með tilliti til einkaeignarréttar, hefðarréttar og mátar kerfið síðan inn í lagaumhverfi ESB.

Kári segir:
„Lögfræðileg- og hagfræðileg umræða á Íslandi um auðlindamál hefur lengi verið á formi áróðurs og herferðar gegn íslenskum almenningi. „Lögfræðiálit" miða að því að flækja tiltölulega einfalt mál sem snýst í grunninn um það hvort afhending á eigum annarra myndi eignarrétt þeirra sem fá eignirnar „afhentar". Í þeirri umræðu er oft gengið út frá því sem gefnu að Alþingi geti gert nánast hvað sem er og þurfi enga leiðsögn frá þjóðinni, í jafn stóru máli og kvótamálinu. Ætla mætti að gerðir Alþingis þurfi ekki að samræmast ákvæðum stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu. Að kosningar séu einungis „óútfyllt ávísun" á gerræði."

„Orðhengilsháttur sumra lögmanna, og háskólakennara í lögfræði, felst í því að þykjast ekki skilja íslensku. Telja hugtök eins og þjóðareign[iv] mjög torskilin enda fellur hugtakið illa að hagsmunagæslunni sem þetta snýst allt um. Nefndir aðilar eru langt frá því að vera hlutlausir í umræðunni og líkjast helst þeim sem mest töluðu fyrir hönd greiningardeilda bankanna, árin fyrir hrunið mikla. Í báðum tilvikum er um ómerkilegan áróður að ræða sem klæddur er í búning fræðimennsku. Er það vel þekkt aðferð við blekkingar að flækja einföld mál sem mest má verða."

"Í tilviki sjávarauðlindarinnar, í lögsögu Íslands, hefur veiðirétturinn lengstum fylgt þjóðinni, ekki ákveðnum einstaklingum. Það er því veiðiréttur
[x] íslensku þjóðarinnar sem er helgaður af aldagamalli hefð. Alþingi Íslendinga er í vinnu hjá þjóðinni og ber að fara að vilja umbjóðanda síns, þjóðarinnar, í hvívetna. En Alþingi hefur, fyrir þrýsting sérhagmunaaflanna (útgerðarmanna), markvisst grafið undan rétti þjóðarinnar. Íslenskir prófessorar, einkum á sviði hagfræði og lögfræði, hafa þar heldur ekki látið sitt eftir liggja."

Að mínum dómi er réttur þjóðarinnar til sameignar á auðlindum lands og sjávar ótvíræður og verður ekki af henni tekinn. Þessi réttur er okkar allra eðli máls samkvæmt óháð því hvað einstaklingum hefur í rás sögunnar tekist að hrifsa til sín eignarhald á einstökum auðlindum. Ef hins vegar út í það er farið að skoða myndun einkaeignarréttar í ljósi löggjafar og hefðar sem kynni að hafa myndast á allra síðustu árum þá ber okkur að hafa hliðsjón af aldagamalli sögu. Á þessu vekur Kári skilmerkilega athygli: Réttur þjóðarinnar til auðlindanna byggir á hefð til þúsund ára!

Ég hvet all til að lesa frábæra grein Kára! Rök hans eru sannfærandi: https://www.ogmundur.is/is/greinar/kari-skrifar-althingi-hyggst-uthluta-til-utvaldra-eigum-thjodarinnar