Fara í efni

GÓÐUR GJÖRNINGUR Í NAFNI ÍSLANDS

Moskan í Feneyjum
Moskan í Feneyjum

Fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum að þessu sinni er Christop Buchel, 48 ára gamall svissneskur og íslenskur listamaður. Hann hefur sérhæft sig í svokölluðum pólitískum gjörningum sem er ætlað að opna augu okkar fyrir víddum sem við höfum ekki komið nægilega vel auga á að mati listamannsins.

Verk Buchels í Feneyjum er í því fólgið að gefa kristinni kirkju það hlutverk að verða einskonar moska eða bænastaður múslíma. Allt er þetta unnið í samráði við múslíma á Íslandi og í Feneyjum.

Um er að ræða gamla kaþólska kirkju sem afhelguð var árið 1973 og hefur síðan m.a. verið notuð sem vöruskemma.

Verkið hefur vakið mikla athygli víðs vegar um heim, ekki aðeins hér á landi. Ekki eru viðbrögðin öll jákvæð. Talsvert er um mótmæli og þess m.a. krafist að „moskunni" verði lokað. Stór orð eru látin falla.

Í mínum huga er þessi gjörningur jákvæður. Hann skaðar engan og gerir það sem honum var ætlað, að sýna okkur nýjar víddir og þá kannski ekki síst í sálarlífi samfélagsins.

Gjörningurinn í Feneyjum  er eins konar prófsteinn á umburðarlyndið. Eitthvað virðist skorta þar á. Þá er viðfangsefnið að ræða leiðir til að opna augun, víkka sjónarhornið og skríða upp úr holum þröngsýni.

„Moskan" í Feneyjum er ekki neikvæð á nokkurn hátt. Hún meiðir engan sem áður segir. Ekkert frekar en gjörningur Rúríar á sínum tíma við Drekkingarhyl  í Almannagjá á Þingvöllum.

Fáir gjörningar, ef þá nokkur, hefur betur opnað augu mín á grimmd fortíðarinnar og þegar listakonan Rúrí sýndi okkur á myndrænan hátt hlutskipti kvenna sem í aldanna rás voru teknar af lífi á okkar helgasta stað. Allt gert í nafni trúar og góðra siða að þeirra tíma hætti. Samtíminn kom eflaust ekki auga á glapræðið.

Góður gijörningur hreyfir við huganum á jákvæðan hátt. Það finnst mér verk Buchels í Feneyjum gera.

Hafi hann þökk fyrir og allir aðstandendur framlags Íslands á listahátíðinni í Feneyjum.

Sjá um Rúríhttps://www.ogmundur.is/is/greinar/ruri-opnar-augu

Aðrar fréttir:http://www.visir.is/fullt-ut-ur-dyrum-alla-daga-i-islensku-moskunni-i-feneyjum/article/2015150519799

http://www.visir.is/skithraeddir-i-feneyjum-islendingar-osidmenntadir-og-modgandi-/article/2015705159963