Fara í efni

FLUGVALLARRANNSÓKNIR ÚT Í LOFTIÐ

Flugvöllur út í loftið
Flugvöllur út í loftið

Okkur er nú sagt að enn eigi eftir að mæla veðurfar á Bessastaðanesi og Lönguskerjum. Það kemur meðal annars fram í svari Innanríkisráðuneytisins við spurningum mínum varðandi störf nefndarinnar sem ríki og borg ásamt Icelandair group settu á laggirnar eftir stjórnarskiptin til að kanna hvar mætti koma Reykjavíkurflugvelli fyrir til framtíðar.

Þessi ákvörðun var tekin þvert á samkomulag sem ég hafði áður gert sem innanríkisráðherra en það fól það í sér að Reykjavíkurflugvöllur yrði, í það minnsta enn um sinn, í Vatnsmýrinni eða svo lengi að forsendur væru fyrir því að ráðast þegar í stað í að reisa þar nýja flugstöð.

Ástæðan fyrir því að hin nýja nefnd var sett á laggirnar var augljóslega að hnekkja fyrra samkomulagi enda borgaryfirvöld staðráðin í því að flæma flugvöllinn á brott þrátt fyrir augljósan vilja yfirgnæfandi meiriluta borgarbúa um hið gagnstæða.

Nefndin hefur þegar kostað tæpar 35 milljónir „án vsk" en enn eiga eftir koma inn reikningar m.a. fyrir ógerðar „formlegar veðurmælingar" á Skerjafirðinum. Að sjálfsögðu vilja menn vita með formlegri vissu hvernig vindarnir blása verði tekin ákvörðun um að fylla fjörðinn og malbika yfir hann fyrir flugbrautir! Þá á eftir að kanna náttúruvá á Hólmsheiði og í Hvassahrauni! Spyrja má hvort ekki væri nóg að fletta því upp í sögubókum hvenær hraun hafa runnið á suðvestur horni landsins. Þar kæmi nefnilega í ljós að mestallt það hraun sem er okkur sýnilegt á Reykjanesi - líka Hvassahraun - hefur runnið eftir landnám Íslands. Semsagt, nánast í gær í sögulegu samhengi. Þetta eitt væri gild ástæða fyrir því að hafa flugvöll í borgarlandinu af öryggisástæðum. 

Getur verið að menn séu enn í fullri alvöru að velta því fyrir sér að búa til flugvöll útí í Skerjafirðinum? Hvað skyldi það kosta? Það þarf ekki að áætla það, dómgreindin dugar til að segja okkur að kostnaðurinn yrði gríðarlegur. Þetta vitum við án þess fyrir því þurfi að gera reikning.

Er árið 2007 ekki örugglega liðið og árið 2015 gengið í garð? Ég er ekki viss um að svo sé í huga þeirra sem ákváðu þessar æfingar. Hvernig væri að ríkið einbeitti sér að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á myndarlegan hátt og bætti svo um munaði aðbúnað aldraðra áður en tugmilljarða framkvæmdir af þessu tagi eru svo mikið sem hugleiddar. Án þessa samhengis eru flugvallarrannsóknirnar bara út í loftin blá.

Svo er náttúrlega hitt að borgarbúar, hvað þá landsmenn allir, eru því augljóslega mótfallnir að flugvöllurinn verði fluttur. Skiptir það engu máli?

Hér er svar Innanríkisráðuneytisins: http://www.althingi.is/altext/144/s/1302.html