Fara í efni

FISKABÚRIÐ Í SUNDLAUG VESTURBÆJAR

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 09./10.05.15.
Mér er sagt að þegar Sundlaug Vesturbæjar í Reykjavík var reist upp úr miðri síðustu öld þá hafi frumkvæðið komið frá Framfarafélagi Vesturbæjar. Tilvist þessa félags hafi borið vott um áhuga íbúanna á því að taka ábyrgð á umhverfi sínu. Róður þessa félags  hefur þó að öllum líkindum ekki verið mjög þungur því yfirvöldin á þessum tíma litu á það sem hlutverk sitt að sjá fyrir allri innri grunnþjónustu og aðstaða til íþrótta og hreyfingar var þar ekki undanskilin. Sundlaug Vesturbæjar var og er án íburðar en glæsileg er hún. Það jók á glæsileikann að í anddyrinu hafði verið komið fyrir fiskabúri einu miklu með skrautfiskum ættuðum sunnan úr álfum. Þessi viðbót við vatnaveröld Vesturbæjarlaugarinnar  hreif gestina, ekki síst yngri kynslóðina.

Svo leið tíminn og fiskabúrið var tekið niður, þótti eflaust ekki svara kostnaði að gleðja augað, eða til hvers ætti að gera það?

En nú gerist nokkuð merkilegt. Og það nú alveg nýlega.  Í anda gamla framfarafélagsins taka nokkrir Vesturbæingar sig saman um að ræða leiðir til að glæða nærumhverfið lífi. Kaffihús Vesturbæjar mun vera af þessari rót  en áður kom fiskabúrið í sundlaug Vesturbæjar. Gamla fiskabúrið hafði lifað af í óljósum endurminningum. En nú var ákveðið að safna í nýtt búr. Þar með var sagt að sá tími væri runninn upp að nýju þar sem menn tækju ábyrgð á umhverfi sínu. Og borgin svaraði með því að heita því að viðhalda búrinu.

Mér varð þetta tilefni nokkurra hugleiðinga. Í fyrsta lagi spurði  ég hvort það gæti verið að við sem samfélag hefðum færst í þá átt að skera svo við nögl í öllu sem er okkur sameiginlegt að við  tímum ekki lengur að kosta annað en það sem ítrasta nauðsyn krefur? Gæti verið að, nánast án þess að við tækjum eftir  því, værum við komin inn í veröld þar sem augað er aðeins  glatt innan veggja prívatheimsins en síður í sameiginlegu rými? Ég minnist þess þegar ég lenti i fyrsta skipti á JFK flugvellinum í New York og bjóst við glæsilegu umhverfi en áttaði mig svo á að í ríkasta landi heims er auðlegðin aðeins í takmörkuðum mæli nýtt í almannarýminu.

Og hugurinn reikar til glæsilegra bygginga sem fátæk íslensk þjóð byggði á tímum vanefna á öndverðri öldinni sem leið og hvernig örlætið á sameiginlegt manngert umhverfi  virðist síðan skreppa saman í öfugu hlutfalli við aukna auðlegð þjóðarinnar.

En er þá allt að fara á versta veg? Nei, svo er ekki. Fiskabúrið í sundlaug Vesturbæjar er til marks um að landið getur risið að nýju og byrjað að hugsa stórt fyrir okkur öll - saman.