Fara í efni

TILSKIPANA TÖLFRÆÐI

ESB - stálið
ESB - stálið

Fréttir herma að ekkert EFTA-ríki standi sig verr í að innleiða tilskipanir frá Evrópusambandinu en Ísland.

Jafnframt er okkur sagt „ að sífellt meiri tilhneigingar gæti á meðal EFTA ríkjanna - Íslands, Noregs og Lichtenstein - að óska eftir aðlögunum og undanþágum á EES-gerðum. Þetta valdi ósamræmi á innri markaðinum."

Ríkisstjórnin ætlar að bregðast við: „ Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur lýst yfir vilja til að bæta úr þessu, meðal annars með því að fjölga sérfræðingum í sendiráði Íslands í Brussel."
http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/04/09/island-ma-eiga-von-a-skomm-i-hattinn-fra-evroputhinginu/

Það er nefnilega það. Í mínum huga eru þetta athyglisverðar fréttir af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi vegna áhugaleysis fjölmiðla á að greina málin sem um er að ræða á annan hátt en að vísa í tölfræði. Gæti verið að Ísland hafi fulla ástæðu til þess að „óska eftir aðlögunum og undanþágum"og að það sé gott en ekki slæmt þegar svo er gert. Sjálfur stóð ég sem ráðherra fyrir slíkri frestun varðandi póstþjónustuna á landsbyggðinni og áttum við þar samleið með Norðmönnum, svo og varðandi þjónustutilskipunina. Þar settum við inn fyrirvara góðu heilli. Hefðum betur gert það í raforkumálunum á sínum tíma.

Í öðru lagi eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar athyglisverð,  nefnilega að fjölga sérfræðingum í sendiráði Íslands í Brussel." Hvað eiga þeir að gera? Hvernig væri að ræða það? Getur verið að vera okkar í EES sé, þegar allt kemur til alls, ekki eins eftirsóknarverð, og margir hafa viljað vera láta? Þarf kannski að láta sérfræðinga kíkja á þetta fremur en að kalla þá til eftirlits- og lögreglustarfa í Brussel? 

Síðan er hitt sem væri sérstaklega forvitnilegat að fá að vita: Hvað skildu sambærilegar kannanir um innleiðingu á ESB tilskipunum leiða í ljós í sjálfum aðildarríkjum Evrópusambandsins? Skyldu sambærilegar rannsóknar vera gerðar á því hvernig Bretar, Frakkar, Portúgalir, Spánverjar, Grikkir, Pólverjar og ... standa sig?

Ég hef grun um að réttrúnaður gagnvart reglugerðarverkinu frá Brussel sé ekki alls staðar eins í hávegum hafður og í EFTA ríkjunum - og gagnvart þeim - þegar allt kemur til alls.

Nema náttúrelega að menn séu algerlega hættir að meta innihaldið í tilskipunum frá Brussel og hlýði bara möglunarlaust. Þá náttúrlega verður fréttaflutningur einvörðungu byggður á prósentum og statistík skiljanlegur.