HJÁLPUM HJÁLPARSVEITUNUM

björgunarsveitir - hellisheiði - þrengsli

Stöðugt fáum við fréttir af björgunarafrekum hjálparsveitanna. Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur löngu unnið sér sess í hjarta þjóðarinnar enda eigum við því óeigingjarna fólki sem þar starfar mikla skuld að gjalda.

Sjálfum finnst mér það skipta gríðarlegu máli að viðhalda því fyrirkomulagi sem mér finnst reyndar vera aðalsmerki íslensku hjálaparsveitanna að krefja aldrei um gjald fyrir útköll sín. Hugmyndum um slíka gjaldtöku er annað veifið hreyft, sérstaklega eftir að fólk sem hundsað hefur viðvaranir lendir í hrakningum. Um leið og byrjað yrði að rukka þá óttast ég að illa verði aftur snúið og hvar ætti síðan að draga mörkin? Við læknum fólk án gjaldtöku þótt vitað sé að það hafi í neysluvenjum sínum stefnt líkama og sál hraðbyri að sjúkrabeðinu.

Tilefni hugleiðinga minna nú eru fréttir vikunnar af ófærð á heiðavegum nánast um allt land. Ég lenti í töfum af þessum sökum þegar Hellisheiðin og Þrengslin lokuðust um tíma nú um helgina. Í ljós kom að veðrinu einu var ekki um að kenna heldur í bland fyrirhyggjuleysi bílstjóra á smábílum sem ætt höfðu út í óvissuna og hvergi skeytt um viðvaranir. Ekki þurfti  mikinn skafrenning til að hefta för vanbúinna bifreiða sem  sátu síðan fastar og heftu þar með för annarra.

Athyglsivert var að fylgjast með því þegar bílalestinni sem stöðvuð hafði verið við Þrengslaveginn var hleypt af stað. Þá virtist þeim liggja mest á sem vanbúnastir voru til ferðalaga í erfiðri færð. Því smærri bílarnir, þeim mun meiri var ákafinn að komast af stað. Í stað þess að finna til öryggis inn á milli fjallabílanna sem þarna voru ófáir, var smádósinni gefið í botn og tekið fram úr fjallabílunum strax á fyrstu metrunum!

Um leið og við þökkum björgunarsveitunum fyrir mikið og óeigingjarnt starf er vert að við spyrjum okkur sjálf hvað við getum gert til þess að hjálpa þeim og gera þeim fyrirhöfnina við að aðstoða okkur minni og léttbærari. Það er nóg að björgunarsveitirnar séu kallaðar út á ögurstundu til að bjarga fólki úr raunverulegum lífsháska, verra þegar þær þurfa að glíma við afleiðingar tillitsleysis og kannski öllu framar, fyrirhyggjuleysis okkar hinna.  

Fréttabréf