Fara í efni

NÆÐINGUR, GARRI OG AMRANDI Í NORRÆNA HÚSINU

Norræna húsið -
Norræna húsið -

Fyrirsögnin eru heitin á köflunum í nýju tónverki  Þóru Marteinsdóttur,  "Blæs" . Þetta tónverk var frumflutt á tóneikum í Norræna húsinu í dag. Það var Tríó Aurora sem flutti verkið en þetta magnaða tríó skipa Sigrún Eðvaldsdóttir, fiðluleikari, Selma Guðmundsdóttir, píanóleikari og Ögmundur Þór Jóhannesson, gítarleikari, allt listamenn á heimsmælikvarða.

Ég leyfði mér hér á síðunni (sjá:(https://www.ogmundur.is/is/greinar/trio-i-norraena-husinu-sigrun-ogmundur-og-selma ) að gefa fyrirheit um góða tónleika og er óhætt að segja að þeir hafi risið undir bestu væntingum - voru vægast sagt frábærir.

Auk tónverks Þóru voru flutt verk eftir íslensku höfundana Sigvalda Kaldalóns - í útsetningu Atla Heimis Sveinssonar - og Árna Björnsson. Síðan voru verk eftir erlenda höfunda, frá meistara meistaranna sjálfan Ludvig van Beethoven svo og Niccolo Paganini, sem báðir voru fæddir vel fyrir átján hundruð, til samtímamanns okkar Malcolms Arnolds, sem til þess að gera nýlega er fallinn frá - hann er sá hinn sami og samdi titillag við kvikmyndina, Brúin yfir Kwai fljótið, sem mín kynslóð man svo vel. Tónverkin voru vel valin og flutningur frábær.

En aftur að Þóru Marteinsdóttur, sem óhætt er að fullyrða að hafi heillað okkur öll með Blæstri sínum. Næðinginn og Garrann þekkjum við. Segja má að þetta hafi verið dagur óvægins Garra svo mikið gekk á í himninum í dag. Amranda þekki ég hins vegar ekki sem veðurtilbrigði. En áheyrendur velktust þó ekki í vafa um að Amrandi er blíðari en hinn harðneskjulegi Garri. Þóra Marteinsdóttir á lof skilið fyrir mjög gott og skemmtilegt tónverk. Ég spái því að þau eigi eftir að koma mörg góð frá henni en hún er enn ung að árum.

Tríó Aurora er á förum til Kína fljótlega í tónleikaferðalag. Þar verða glæsilegir fulltrúar Íslands á ferð!