Fara í efni

HVER ÁKVEÐUR HVAÐ SAMIÐ ER UM Í TiSA VIÐRÆÐUM?

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 27.02.15.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur lýst því yfir að TiSA samningurinn um markaðsvæðingu þjónustuviðskipta verði „gerður opinber strax og hann verður undirritaður."
Væri ekki ráð að samningurinn eða öllu heldur samningsdrögin verði gerð opinber áður en þau verða undirrituð af Íslands hálfu?

Hinir snauðu í varnarbaráttu

TiSA samningarnir um markaðsvæðingu þjónustuviðskipta, (Trade in Services Agreement), hafa verið í burðarliðnum í um þrjú ár eða eftir að GATS viðræðurnar um sama efni sigldu tímabundið í strand vegna andstöðu ýmissa þróunarríkja svo og verkalýðshreyfingar sem andæfðu því að innviðir samfélaganna yrðu markaðs- og einkavæddir.
Samningarnir sigldu einnig í strand vegna þess hve lokaðar viðræðurnar voru og andlýðræðislegar. Verkalýðshreyfingu og öðrum almannasamtökum var beinlínis meinað að hafa áheyrnarfulltrúa á fundum þar sem afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar og er frægt dæmi að endemum þar um, ráðherrafundur sem boðað var til í Doha í Quatar á Arabíuskaga árið 2001, en sú staðsetning varð fyrir valinu sökum þess hve auðvelt var að halda mótmælendum fjarri hinu góða gamni.

Ítrekað siglt í strand

Einkavæðingarsinnar eru orðnir vanir því að sigla fleyi sínu í strand. Það gerðu þeir í svokallaðri MAI lotu (Multilateral Agreemnet on Investment) , sem var skipulögð undir handarjaðri OECD á árunum 1995-1998. Samtímis, árið 1995, var GATS lotan hafin og árið 2012 var síðan hafist handa undir skammstöfuninni TiSA.
Í öllum tilvikum hefur verið reynt að fara á bak við almenning með því að setja viðræðurnar undir huliðshjúp. Við áttum breska stórblaðinu Guardian það að þakka að upplýst var um GATS samningana árið 2002 og í júní í sumar gerðu Wikileaks okkur þann greiða að upplýsa um stöðuna í TiSA viðræðunum.

Þökk sé uppljóstrurum

Eftir þetta hafa stjórnvöldin ekki átt annarra kosta völ en tala á opinskárri hátt og vera gjöfulli á upplýsingar til almennings þótt þetta nái ekki lengra en svo að utanríkisráðherrann íslenski segist ætla að upplýsa okkur um samninginn að fullu eftir að hann hefur undirritað hann. Þetta verður honum að sjálfsögðu aldrei liðið.
Og ekki nóg með það. Utanríkisráðherra verður að upplýsa okkur um og fá samþykki Alþingis fyrir öllum þeim skuldbindingum sem hann ætlar íslensku samfélagi að undirgangast í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Hver ætti annars að taka ákvarðanir um hvað eigi að semja í TiSA eða öðrum áþekkum samningum en Alþingi undir skæru kastljósi fjölmiðla, nema þá um væri að ræða svo stór mál að efna þurfi til þjóðaratkvæðagreisðslu.
Það er vel að grunnþættir heilbrigðisþjónustu hafi af Íslands hálfu verið undanskildir í skuldbindingum Íslands í TiSA viðræðunum einsog fram hefur komið. En hvað með aðra þætti sem flokkast undir samfélagsinnviði? Kemur til greina að semja um einhverja þeirra?

Óafturkræft

Allt þetta þarf að ræða í þaula. Í því sambandi þarf að hafa í huga að skuldbinding um markaðsvæðingu tiltekins þjónustuþáttar er óafturkræf samkvæmt samningsdrögum bæði í GATS viðræðunum og TiSA. Reyni ríki að hverfa frá fyrri skuldbindingu á það á hættu að verða skaðabótaskylt.
En hvers vegna TiSA til viðbótar við GATS?
TiSA ríkin eru 50 talsins en aðildarríki að GATS viðræðunum eru hins vegar 123 af þeim 160 ríkjum sem svo aftur eiga aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO. Það er mat ríka heimsins (ríkjanna 50) að takist þeim að semja um markaðsvæðingu á laun þá muni þeim einnig takast að þröngva samningnum upp á ríkin 73 sem út af standa. Þetta er ljótur leikur sem Ísland tekur því miður þátt í - enn sem komið er.