Fara í efni

HUGSJÓNIR OG HAGSMUNIR

vín-hornið
vín-hornið

Ungliðadeild Sjálfstæðisflokksins - þ.e. frjálshyggjuvængur hennar - sendir nú án afláts áskoranir til alþingismanna um að hjálpa til við að koma áfengi í matvörubúðir með því að styðja lagafrumvarp þess efnis.

Þau sem senda okkur þingmönnum nöfn sín í þessum tilgangi eru greinilega mjög nýtið fólk því ég sé ekki betur en sömu nöfn séu notuð oftar en einu sinni. Um þetta skal ég þó ekki fullyrða því kunnugleiki nafnarununnar gæti stafað frá síðustu innsendingarherferð, þ.e. þegar áfengisfrumvarpið var upphaflega lagt fram síðastliðið haust. Þá var mikið um nafnasendingar enda brunnu hugsjónaeldar þá heitt.

Ég minnist umræðufundar sem sjálfstæðismenn buðu mér þá til ásamt fleirum í Valhöll. Þar fór svo, einsog kom mér reyndar ekki á óvart, að fjöldi flokksbundinna sjálfstæðismanna gaf sig á tal við mig til að lýsa yfir andúð á nýframkomnu frumvarpi. Þetta fólk hafði ekki eins hátt og þau sem börðust fyrir hugsjón sinni um brennivín í matvörubúðir.

En það eru fleiri en hugsjónamenn sem láta þetta mál til sín taka. Þar eru ekki síður á ferð  hagsmunaaðilar sem sjá gróðamöguleika fyrir sjálfa sig takist að telja Alþingi á að koma ÁTVR fyrir kattarnef og brennivíninu þá jafnframt inn í vöruhillurnar hjá Högum, Nettó, Krónunni og hvað þær nú allar heita verlsunarkeðjurnar, sem munu í reynd fá einokunina á sínar hendur á sama hátt og þær  hafa náð undirtökum á öðrum sviðum verslunar.

Þess vegna er það ekki út í hött þegar lesandi spyr hér á síðunni hvort kostnaðarsamar áróðursherferðir kunni að vera á vegum hagsmunaaðila auk hugsjónafólksins í Heimdalli. (Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/heimdallur-og-hagar

 

Sjá ennfremur eftirfarandi frá stjórn Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum:

Foreldasamtök gegn áfengisauglýsingum furðar sig á að engin ábyrgðarmaður sé skráður fyrir vefsíðunni vinbudin.com og tengdri fésbókarsíðu.
 

Einungis kemur fram að um sé að ræða "áhugafólk" . Það er undarlegt ef viðkomandi "áhugafólk" þorir ekki að gangast við aðild sinni að síðunni og ótækt í nafni lýðræðilegrar umræðu að eiga orðastað við "fólk" sem þorir ekki að gangast við skoðunum sínum.

Þess í stað leitar "áhugafólkið" til okkar fremstu auglýsingasérfræðinga, en "vefnaðurinn" er augljóslega unnin af fagmönnum sem lagt hafa á sig umtalsverða vinnu m.a við gerð sérhannaðs vefumhverfis, gagnaskráningar og "greinargerðar" m.m. í anda þeirra hagmuna sem viðkomandi "áhugamenn" standa fyrir.

Sem sagt rándýr keyptur einhliða áróður sem hleypur á verulegum fjárhæðum og á ekkert skylt við lýðræðislega umræðu og því síður táknræn fyrir almennar skoðanir í samfélaginu. Þessu vill stjórn Foreldrasamtakanna koma á framfæri svo því sé nú til haga haldið með formlegum hætti. Foreldarsamtökin hvetja þingmenn til þess að standa vörð um velferð og réttindi barna í samfélaginu. Áfengi í matvörubúðum er ekki liður í því


F.h stjórnar Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Árni Guðmundsson formaður

http://www.foreldrasamtok.is/ - www.facebook.com/foreldrasamtok