Fara í efni

BIÐLAUNAFRUMVARP: ÚT ÚR DUTTLUNGAKERFI OG INN Í RÉTTINDAKERFI

RÉTTLÆTISVOGIN
RÉTTLÆTISVOGIN
Árið 1996 var stigið óheillaspor með breytingum á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Á meðal  breytinga sem þá voru gerðar var afnám svokallaðs biðlaunaréttar hjá almennum starfsmönnum ríkisins. Samkvæmt þessum rétt hafði starfsmaður haldið óbreyttum kjörum sínum í hálft ár eða heilt ár eftir atvikum (fór það eftir því hve lengi viðkomandi hafði  verið í starfi). Biðlaun fengu menn ef starf þeirra var lagt niður við skipulagsbreytingar.

Þetta þýddi að höggið sem einstaklingurinn varð fyrir við atvinnumissinn var mildað nokkuð.

Embættismenn héldu hins vegar biðlaunarétti sínum, sem var fullkomlega eðlilegt sem almenn regla og hvað þá varðar einnig sérstaklega í ljósi þess að ráðningarkjörum þeirra var jafnframt breytt  á þann veg að þeir gætu aðeins gengið að ráðningu sinni vísri í fimm ár. Ef þeir yrðu að víkja á þessu skamma ráðningartímabili þótti eðlilegt að þeir nytu biðlaunaréttar.

Starfslokasamningar tíðkast enn þrátt fyrir þetta fyrirkomulag og eru iðulega gerðir himinháir samningar við toppana hjá stofnunum og sveitarfélögum, jafnvel þegar þeir taka sjálfir ákvörðun um að víkja úr starfi. Iðulega er þessum samningum haldið leyndum enda þola þeir margir illa dagsljósið. Þessir samningar byggja á geðþótta og samkennd valdafólks sem vill hugsa vel hvert um annað. Hver veit hver næst þarf á góðri umbun að halda?

Þetta er kerfi mismununar. Eitt gildir um þá sem standa hátt. Annað um þá sem standa lágt. Þannig á þetta ekki að vera.

 Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp um að endurvekja biðlaunarétt fyrir almenna starfsmenn ríkisins. Ég tel að slík ákvæði eigi í kjölfar samþykktar frumvarpsins á Alþingi eða samhliða meðferð þess þar að festa inn í kjarasamninga starfsmanna sveitarfélaga og launafólks á almennum markaði. þetta á að sjálfsögðu að gilda um vinnumarkaðinn allan.

Starfslok eiga hvorki að byggja á mismunun né á geðþótta heldur á skilgreindum réttindum sem allir njóti.

Frumvarpið: : http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=144&mnr=544

Fréttaumfjöllun á Byljunni og Vísi.is: http://www.visir.is/starfslokasamningar-tryggja-toppana-en-launafolk-sett-ut-a-gaddinn/article/2015150218949