Fara í efni

AÐ VERA BARA PÓLITÍSKUR

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15.02.15.
Í vikunni gat að líta eftirfarandi fyrirsögn í Morgunblaðinu: „Verslun er ekki hlutverk ríkisins."  Þetta er gamalkunn pólitísk kennisetning  enda höfð eftir stjórnmálamanni. Hún þýðir einfaldlega að á markaði eigi að gilda markaðslögmal, frjáls samkeppni án aðkomu ríkisins.  Yfirleitt fylgir með í þessum pakka að sem flestu verði komið út á markaðstorgið og þá úr höndum hins opinbera, enda „verslun ekki hlutverk ríkisins." Hringnum lokað.

Viðleitnin hefur einmitt verið sú að markaðsvæða sem flest sem hefur verið á hendi ríkis og sveitarfélaga og jafnvel þótt skrefið sé ekki stigið til fulls með einkavæðingu sjálfrar þjónustunnar þá er allt umhverfið -lög og reglur -  gert sem áþekkast því sem tíðkast á markaði. Aðhald sem áður var gagnvart starfseminni  beint fer nú fram í gegnum Samkeppniseftirlit ríkisins! Og einhver alvarlegustu brot sem menn geta hugsað sér verða þá jafnframt brot á samkeppnislögum.

Ég minnist umræðu á þingi þegar hafnirnar á Íslandi voru settar undir hlutafélagalög. Talsmaður breytinganna kom þá að máli við mig og sagði að áhyggjur mínar væru óþarfar. Þetta yrði ekki til að rýra samfélagsleg sjónarmið, eftir sem áður væri hægt að taka tillit til þeirra. „Við munum passa upp á Blönduós," man ég hann sagði. Ég taldi að því miður myndi hann litlu fá um þetta ráðið þegar til lengri tíma væri litið. Þegar lagaumhverfið væri hlutafélagalög og eftirlitsaðilinn Samkeppniseftirlitið  og EES þá kæmust aðrar mannlegar óskir en markaðshugsun ekki að. Til þess væri leikurinn og gerður.

Markaðsbandalagið, ESB/EES, veit alveg hvað það syngur. Því er nefnilega stýrt af hugmyndafræði eins og Sovétríkjunum forðum. Hjá hinum síðarnefndu skyldi allt undir ríkið, hjá ESB allt undir markaðslögmálin. Við höfum séð þá þróun í orkugeiranum og í félagslegum innviðum.
Og nú spyr ég: Viljum við að allt það sem skákað  er inn í verslunarumhverfi verði þá utan seilingar samfélagsins, á  bannsvæði fyrir ríki og sveitarfélög? Er sá tími að renna upp að þeir þættir heilbrigðisþjónustunnar sem gera má að verslunarvöru og  græða á, verði ekki undir nokkrum kringumstæðum á vegum ríkis eða sveitarfélaga í anda formúlunnar, „verslun er ekki hlutverk ríkisins"?

Og af því að áfengi er verslunarvara, skal þá ríkið útilokað frá þeirri verslun? Harður markaðsmaður á öndverðum meiði við mig í pólitík segist vera sammála mér um að áfengi eigi ekki að fara í stóru matvörukeðjurnar. „Ég lærði það á sínum tíma að breytingin með stóru sjálfsafgreiðsluverslununum var sú að menn uppgötvuðu að staðsetning vöru skipti öllu máli. Og að staðsetja áfengi á sama svæði og almenna matvöru er ekki skynsamlegt vilji maður hafa hemil á sölu og þar með neyslu."

Þetta sama segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og íslenskt fagfólk á sviði forvarnarmála.
Og við sem hvetjum til að menn forðist hina hugmyndifræðilegu nálgun og velji hina praktísku, spyrjum: Ef grundvallarbreyting á sölufyrirkomulagi áfengis verður gerð á kostnað heilbrigðissjónarmiða, með tapi fyrir ríkissjóð, minna úrvali, hærra verði og lakari þjónustu fyrir neytendur, þarf þá ekki að spyrja, til hvers er unnið? Getur það gengið að vera bara pólitískur en ekkert praktískur?