TEKIÐ UNDIR MEÐ LANDVERND

Landvernd - lógó

Undafarna daga hafa alþingismenn fengið senda áskorun frá Landvernd í nafni fjölda einstaklinga, um að hafna áformum  meirihluta atvinnuveganefndarAlþingis um að færa fjórar virkjanahugmyndir úr biðflokki í virkjanaflokk rammaáætlunar. Í áskoruninni segir að tillaga meirihlutans sé "aðför að lýðræðislegum og faglegum vinnubrögðum sem Alþingi sjálft hefur sett lög og reglur um. Með tillögunni er gengið þvert gegn anda laganna um rammaáætlun og dregið úr möguleikum á friði um virkjanamál hér á landi."

Auðvitað má færa rök fyrir því að Alþingi hafi rétt á að breyta ákvörðunum fyrri þinga. Þetta mál snýst hins vegar ekki um það eitt. Málið er miklu stærra. Það snýst um það hvort stjórnarmeirihlutinn ætli að hafna aðferðafræði sem reynt hefur verið að þróa á undanförnum árum í því augnamiði að ná breiðri sátt um ákvarðanir sem á undaförnum árum hafa skapað illvígar deilur með þjóðinni.

Getur það virkilega verið að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn gefi ekkert fyrir sjónarmið  Landverndar eða annarra náttúruverndarsamtaka? Ætlar ríkisstjórnin virkilega að stefna ákvörðunum um landnýtingu og náttúruvernd í gamalkunnan átakafarveg? Ég hélt að menn hefðu fengið nóg af slíku og vildu þróa fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð við ákvarðanatöku.

 Ég vona að stjórnarmeirihlutinn beri gæfu til að endurskoða vanhugsuð áform sín í samræmi við ábendingar Landverndar.  

Fréttabréf