Fara í efni

RÁÐIST Á FÁTÆKA Í OKKAR NAFNI

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 04.01.15.
Ég hef stundum sagt söguna af því þegar ég spáði falli Margrétar Thatchers af stóli forsætisráðherra Bretlands skömmu eftir að hún komst til valda undir lok áttunda áratugar síðustu aldar. Ég var þá fréttamaður á Ríkisútvarpinu og sinnti fréttaskýringum um erlend málefni.

Spádóma mína um afhroð járnfrúarinnar eins og hún var gjarnan nefnd, tengdi ég hraðvaxandi atvinnuleysi í Bretlandi á þessum tíma. Það fór úr hálfri milljón í milljón. Það var nógu slæmt en miklu verra átti ástandið eftir að verða, hálf önnur milljón, tvær milljónir atvinnulausra, síðan tvær og hálf og loks þrjár milljónir atvinnulausra. En alltaf sat Thatcher.

Það sem ég hafði misreiknað mig á var tíðarandinn sem á þessum árum var að taka breytingum. Á sjötta, sjöunda og lungann úr áttunda áratugnum hefðu spádómar mínir ræst. En ekki lengur. „Þú gleymir einu", sagði glöggur kunningi minn, „þú horfir til þeirra sem eru án vinnu, en gleymir öllum hinum sem hafa vinnu." Og bætti síðan við: „Þeir eru miklu fleiri."

Samfélag sem áður leit á atvinnuleysi sem þjóðarböl, hlutskipti sem ætti ekki að henda nokkurn mann hugsaði nú þrengra, í anda Margrétar Thatchers sem sagði að hver maður ætti fyrst og fremst að hugsa um sjálfan sig. Þá myndi hin ósýnilega hönd markaðarins sem Adam Smith þóttist hafa komið auga á í árdaga kapítalismans, sjá um afganginn. Eigingirnin og græðgin myndu með öðrum orðum gagnast samféalginu öllu þegar upp væri staðið. Ekki reyndist þetta farsæl hugsun og áttu menn eftir að sjá hve miklu verr í stakk búið misréttisþjóðfélagið er að glíma við erfðileika en hitt sem býr við jöfnuð og félagslegt réttlæti.

Rétt fyrir áramótin lét Þorleifur Gunnlaugsson, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík frá sér fara athyglisverða hugleiðingu, eins konar herhvöt. Hún gengur þvert á hugsun Thatchers. Þorleifur segir nefnilega að atvinnuleysi komi okkur öllum við. Kerfisbreytingar nú um áramótin þar sem tíminn sem fólk á rétt á atvinnuleysisbótum er styttur um hálft ár, eru sagðar spara ríkinu milljarð en sveitarfélögin sem taki við framfærslunni  á tímanum sem nemur styttingunni, verða af hálfum milljarði. Hvað um fimm hundruð milljónirnar þarna á milli, spyr Þorleifur og svarar sjálfum sér að bragði og segir að í þessari peningaupphæð sé „fólgin tekjuskerðing hjá þeim hópi á Íslandi sem býr við lökust kjör og erfiðustu félagslegu aðstæðurnar eftir langvarandi atvinnuleysi."

Síðan útlistar hann hin bágu kjör og kemst að þeirri niðurstöðu að þau séu á ábyrgð okkar allra - í okkar nafni.
Þetta er rétt hjá Þorleifi Gunnlaugssyni. Þeim okkar sem hafa fulla vinnu og búa við sæmileg launakjör væri hollt að hugleiða hvað okkur finnist um þá tilhugsun að búa við 178 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt og þurfa síðan að sæta skerðingu eins og gerðist um þessi áramót hjá allstórum hópi fólks. Ekki nógu stórum til að ógna einni ríkisstjórn nema að við verðum nógu mörg sem sættum okkur ekki við tíðaranda þröngrar eigngirni og svörum herhvöt Þorleifs Gunnlaugssonar til varnar tekjulægsta fólkinu á Íslandi.