Fara í efni

ALEC Á SÖGU

Alec Guinn á Hótel Sögu
Alec Guinn á Hótel Sögu
Fróðlega og stórskemmtilega samantekt um byggingu og sögu Bændahallarinnar og Hótels Sögu er að finna  í nýjasta tölublaði Bændablaðsins. Tilefni úttektar blaðsins er augljóslega sú ákvörðun Bændasamtaka Íslands að selja þessi miklu mannvirki.

Mér þykir vænt um Bændahöllina enda má heita að við höfum átt sameiginlegan uppvöxt á Melunum í Reykjavík. Ég er ívið eldri en höllin góða enda lék ég mér í grunni hennar þegar hún var að verða til um 1960; dansaði síðan í Súlnasalnum og drakk þar  tvöfaldan Asna þegar Hótel Saga var fullbúin. Ég var þá að teygja mig í lok annars áratugar ævi minnar og stíga inn á þrítugsaldurinn. Endrum og eins - þó aðeins á sérstökum hátíðarstundum  -borðaði ég  í Grillinu sem mér hefur alla tíð þótt glæsilegasti veitingastaður landsins - að öðrum mörgum góðum og glæsilegum  veitingastöðum ólöstuðum.

Ég er ekki einn um að hafa dáðst að Grillinu. Þar fór einnig vel um leikarann góðkunna, Bretann  Alec Guinnes. Hann mun alltaf hafa valið sama borið fyrir sig og eiginkonuna þegar hann dvaldi á Hótel Sögu en það sneri þannig að Bessastaðir blöstu við, Áltafnesið og Reykjanesfjallgarðurinn.  

Um þetta fáum við að lesa í fjölmörgum fróðleiksmolum í sögulegri úttekt Bændablaðsins. Þar segir m.a. að Alec Guinness hafi mjög oft lagt leið sína til Íslands og stundum nokkrum sinnum á ári: „ Hann sagði að honum þætti svo gott að koma til Íslands til að slaka á því hér fengi hann að vera í friði og ááreittur."

Umfjöllum Bændablaðsins þótti mér skemmtileg um margt sem áður segir en ástæðan fyrir því að ég vek máls á henni hér eru einmitt þessi ummæli leikarans breska. Sú var einmitt tíðin að frægir útlendingar væru látnir afskiptlausir og óáreittir þegar þá bar að garði sem gesti hér á landi. Það er löngu liðin tíð, sbr., þetta: http://www.visir.is/beyonce-birtir-mynd-veist-thu-hvar-hun-er-/article/2014141209574
Ég sé ekki betur en skipt hafi verið um fyrirsögn á framangreindri frétt en að áður hafi verið grennslast fyrir um ferðir viðkomandi einstaklinga í fyrirsögninni enda er ljóst að ekki eru allir á eitt sáttir um að það sé réttlætanlegt að hundelta frægt fólk sem hingað kemur. Það er góðs viti þykir mér.  http://www.visir.is/adfor-ad-sjalfsmynd-thjodar/article/2014141209458 

Vonandi hætta fjölmiðlar að áreita gestkomandi fólk og að við sýnum okkur sjálfum þarmeð þá virðingu að vera yfir það hafin að hnýsast í persónulegt líf fólks - líka þess fólks sem hefur unnið sér eitthvað til frægðar.

Ég hef stndum vakið á þessu athygli áður þar á meðal hér.:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/fraegt-folk-og-fjolmidlar
https://www.ogmundur.is/is/greinar/reedmccartney-og-islendingar