Fara í efni

GUÐVELKOMIÐ AÐ REISA EINKASJÚKRAHÚS!

Einkasjúkrahúsið góða
Einkasjúkrahúsið góða


Læknaverkfallið á sér ýmsar hliðar. Með niðurskurði í almennri heilbrigðisþjónustu, þar á meðal á kjörum heilbrigðisstarfsmanna og starfsaðstöðu, er búið í haginn fyrir einkavæðingu. Samhliða verkfalli lækna sem nú hafa risið upp langþreyttir á að ekki hefur verið á þá hlustað, berast fregnir af nýrri einkarekinni heilbrigðismiðstöð - einkareknu sjúkrahúsi.
Hvað finnst okkur um það? Sjálfum finnst mér það vera í góðu lagi en með einu afgerandi skilyrði, nefnilega að sjúkrahúsið verði í alvöru einkarekið!
Mig grunar hins vegar að það sé ekki meiningin. Ég held að hugmyndin sé sú að skattgreiðendur borgi brúsann. Líka arðinn til fjárfestanna. Ef sú er raunin þá segi ég NEI TAKK! Hér er nefnilega komin forskrift að ranglátu kerfi og gríðarlega dýru - og ef ég á að borga þá vil ég taka þátt í að ákveða hvernig farið verður með peningana mína.
Þess vegna á að semja við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk. Þegar allt kemur til alls þá er það ódýrari kostur að semja um aðgengileg kjör við starfsfólkið í opinbera heilbrigðiskerfinu en það yrði að smíða tvöfalt ómarkvisst heilbrigðiskerfi með innbyrðis mismunun og þungum klyfjum á skattgreiðendur.