Fara í efni

LUNKINN INNSÆISHÚMOR Í PARÍS NORÐURSINS

París norðursins
París norðursins

Fór í bíó og sá París norðursins í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar.

Hví þessi nafngift? Flateyri suðursins hefði sambærileg mynd eflaust getað heitið, tekin sunnan Atlantsála en ekki norðan, enda vorum við ítrekað minnt á það í París norðursins að hið mannlega  drama væri alls staðar ofið úr sömu þráðum hvort sem við værum í Thaílandi, Portúgal, vetfirskri sjávarbyggð eða stórborginni París, sem þó var aldrei nefnd sérstaklega á nafn; alls staðar værum við eins inn við beinið; hvarvetna væri stórborgina að finna, líka á Flateyri við Önundarfjörð.

Læt ég þá liggja á milli hluta að Flateyri mun státa af margbreytilegri mannslífsflóru en flest byggðarlög á Íslandi.

Leikurinn var frábær. „Við erum að fara í inngrip", sagði AA forkólfurinn á staðnum þegar söguhetjan var „fallin." Það var Sigurður Skúlason, sem svo mælti, reyndasti leikarinn í hópnum. Hann þurfti ekki að segja margt til að minna á það! Mér þótti reyndar allir leikararnir góðir, hvort sem var um að ræða áhrifaríka túlkun á innri tilfinningabaráttu ungs kennara á flótta undan gömlu lífi og í leit að nýju; fullorðnum erfiðum töffara, föður hans, sem við jafnframt fengum að kynnast sem viðkvæmum og brothættum, skeggjuðum hasshaus sem sótti AA fundina um brennivínslaust líf, einstæðu skvísulegu móðurinni sem þegið hefði París suðursins í skiptum fyrir norðlægu versjónina og unga drenginn, son hennar, sem þráði meiri alvöru og öryggi í líf sitt.   

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson  er sérstaklega laginn og lunkinn leikstjóri, fundvís á hugmyndir og tekst að vinna vel með snjöllum handritsmönnum einsog Huldari Breiðfjörð. HGS fer sér að engu óðslega, liggur ekkert á, en undir lokin er hann búinn að fanga huga okkar allra. París Norðursins er stútfull af húmor, vel tekin, vel leikin og margt þar til umhugsunar. Ég fór þreyttur í bíó og var við að sofna framan af, en orðinn glaðvakandi í myndarlok, slakur og ánægður.
Takk fyrir mig!
Eitt enn. Tónlistin var frábær.
Aftur, takk fyrir mig!!