Fara í efni

VERÐUR NÚ HLUSTAÐ?

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 07.09.14.
Gunnar Bragi, utanrikisráðherra segir að sig bráðlangi til að setja meira almannafé í NATÓ. Þannig megi styrkja varnir Íslands. Þar er ég á öndverðum meiði  en leyfi mér að spyrja  af þessu tilefni hvort við gætum sameinast um annars konar varnaraðgerð fyrir Ísland; varnir fyrir öræfin og hálendið.  Tillagan er sú að við kaupum Grímsstaði á Fjöllum, eignumst þessa 300 ferkílómetra jörð sem er eins konar útvörður hásléttunnar sem hefur að geyma einhver fegurstu náttúrudjásn Íslands.

Kannski hefði mátt setja það undir einhvers konar varnarmálaskilgreiningu þegar því var forðað að kínverskur auðmaður keypti þessa miklu jörð. Það var ekki nóg með að hann hefði áform um að raska öræfarónni  með húsakosti miklum og mannmergð.  Þarna átti líka að verða flugvöllur!  
Af þessu varð ekki - í bilii. Eftir sátu með sárt ennið eigendur Grímsstaðajarðarinnar. Hafi þeim gramist skil ég það en tek þó jafnframt eftir æðruleysi þeirra almennt þegar peningarnir eru annars vegar.
En hvers vegna ekki að setja einhverja peninga í þeirra vasa og tryggja þar með eignarhald þjóðarinnar á þessari miklu jörð? Grímsstaðir mynda einskonar kraga utan um hálendið ásamt fleiri miklum jörðum á þessum slóðum sem þegar eru í almannaeign. Þar nefni ég Möðrudal.Skrítið hve lítið hefur verið gert með áskorun á annað hundrað Íslendinga í þessa veru fyrir réttum tveimur árum. Um var að ræða fyrrverandi forseta Íslands, lækni og ljósmóður, leigubílstjóra, verktaka, Megas og formann Sambands ungra bænda. Þessir einstaklingar sameinuðust  í áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar um að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og tryggði jörðina í þjóðareign. Á undirskriftalistanum voru vel á annað hundrað manns,  ungir og aldnir, konur og karlar og alla vega á litinn í pólítík. Gamall ágreiningur horfinn því þarna voru þeir af pólitískum ritstjórnum fyrri  tíðar, Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu : Styrmir, Helgi Már og Kjartan Ólafsson - og Matthías. Líka Ómar, Páll Skúlason, Ágúst Valfells,  Björk, Guðrún Kristjánsdóttir myndlistarkona, Guðmundur sundkappi Gíslason og Ólafur Stefánsson, handboltastjarna. Þarna voru fyrrverandi forsetar Alþingis, Halldór Blöndal, Guðrún Helgadóttir og  Ólafur G. Einarsson, fyrrum þingmenn úr öllum flokkum, Hjörleifur , Guðni , Eiður og Svavar, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðmundur H. Garðarsson, Páll Pétursson, Ingvar Gíslason, Guðrún Agnarsdóttir, Ragnar Arnalds  og margir, margir fleiri.

Þegar ég mælti fyrir þingsályktunartillögu á síðasta þingi, sem byggði á áskorun þessa fólks, setti marga hljóða. Það hlaut að verða hlustað á þennan þverskurð þjóðarinnar. Enn hefur það ekki verið gert. Nú verður þingmálið flutt að nýju. Skyldi nú verða hlustað?