NÝ-DÖNSK HÚSNÆÐISMÁL OG GAMLI LANDSBANKADRAUMURINN

Á gullskónum

Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórn á Íslandi frá 1991 til 2009. Fyrst með Alþýðuflokknum frá 1991 til 1995, svo með Framsókn til 2007 og þá með Samfylkingunni frá 2007 til 2009. Haustið 2008 var allt orðið klárt fyrir hrun, búið að gera Ísland "einfaldara" sem kallað var en með því var átt við að fjármálamenn gætu farið sínu fram án þess að eftirlit og regluverk truflaði þá.

Á þessu tímabili var talsvert um það að arðvænlegar almannaeignir væru afhentar einkaaðilum svo sem ríkisbankarnir og talsvert var unnið í því að fela einkaaðilum þá þætti almannaþjónustunnar sem skiluðu arði en láta samfélagið um hina sem þurfa á stuðningi að halda. Nokkur brögð voru að þessu innan heilbrigðisþjónustunnar þótt allt væri þetta á byrjunarstigi þegar ballinu lauk. En talsvert hafði verið reynt, ekki síst í húsnæðiskerfinu. Þar var planið að láta bankana reka það sem borgarði sig en láta ríkið um hitt - köldu svæðin og efnalitlar fjölskyldur. Framsókn stóð gegn þessum áformum og Framsókn stóð líka gegn skaðlegustu hugmyndum Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðiskerfinu - enda lýsti formaður Sjálfstæðisflokksins því yfir við stjórnarskiptin 2007 að Framsókn væri orðin erfið að reiða sig á! Ekki að undra enda flokkurinn  orðinn sundurtættur. Hugsjónafólk í flokknum að niðurlotum komið.

En skyldi sá harmleikur vera að endurtaka sig? Bændasamtökin segja að hækkun matarskatts samhliða afnámi vörugjalda, þar með sykurskatts, stríði gegn lýðheilsumarkmiðum og komi í bakið á innlendri matvælaframleiðslu. Í heilbrigðisgeiranum eru menn  agndofa yfir því að taka eigi upp úr vösum sjúklinga mörg hundruð milljónir til viðbótar því sem áður hefur verið gert. Í verkalýðshreyfingunni  er aðförin að atvinnulausum harðlega gagnrýnd en til stendur að stytta réttinn til atvinnuleysisbóta um hálft ár. Það þýðir kjaraskerðingu.

Fleira mætti telja. En tvennt langar mig til að vekja sérstaklega athygli á sem nú er á vinnsluborði ríkisstjórnarinnar.

Í fyrsta lagi er í bígerð lagafrumvarp sem leggur niður Íbúðalánasjóð í núverandi mynd. Hugmyndin er sú sama og gælt var við á árunum í aðdraganda hrunsins, það er að  láta bankana reka arðvænlega hluta kerfisins en skattgreiðendur þann hluta  sem ekki borgar sig. Í kynningu á málinu sl. vor var þetta kallað "danska leiðin."  Í ljós kom  að kerfið  virðist fjarskyldur ættingi danska húsnæðiskerfisins en gæti  hugsanlega flokkast sem eins konar  "ný-dönsk" í íslenskri útleggingu.

Hitt sem ég vildi nefna er fyrirhuguð sala Landsbankans. Hann skilar tuttugu milljörðum í ríkissjóð á þessu ári. Ekki að undra að Sjálfstæðisflokkinn langi til að drífa í að selja eða gefa bankann  - svona upp á gamlan góðan tíma.

Menn geta leikið sér að því að reikna út hvað gera má fyrir tuttugu milljarða. Mér heyrðist talsmenn háskólastigsins kvarta í vikunni og fletti upp hvað kostað hefði skattgreiðendur á þessu ári að reka Háskóla Íslands, Tilraunastöð Háskólans að Keldum, Raunvísindastofnun Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólann á Hólum, Námsmatsstofnun, Háskólann á Bifröst, Háskólann í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Rannsóknamiðstöð Íslands, Markáætlun á sviði vísinda og tækni, Rannsóknasjóð, Tækjasjóð/Innviðasjóð, Háskóla- og vísindastofnun (viðhald og stofnkostnað), Háskóla- og rannsóknastarfsemi,Rammaáætlun ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun.

Rekstrakostnaður framangreindra stofnana var tuttugu og þrír milljarðar, litlu meira en svipað þó og kemur í ríkissjóð á árinu sem arður af Landsbankanum.

Nú verður reynt að selja hann og auðvitað má nota þessa peninga til að kaupa nokkrar snekkjur, einkaþotur, hótel, vötn,  eyjur og fjöll og sitthvað annað sem hugur þeirra girnist sem bíða spenntir eftir góðverkum ríkisstjórnarinnar.

Fréttabréf