Fara í efni

LEITIÐ OG ÞÉR MUNUÐ FINNA

Reynir Traustason DV
Reynir Traustason DV

Ekki veit ég hvort auðveldara er að finna brotalamir í karakter og persónusögu Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, en annarra manna. Hitt má öllum ljóst vera að sú leit er hafin.
Virðist vera mikill áhugi á að þagga niður í ritstjóranum og samstarfsmönnum hans á DV. Fjárfestir lýsir því beinlínis yfir í Morgunblaðinu um helgina, að áhugi hans á að eiga hlut í DV gangi aðeins út á eitt: Að losna við ritstjórann enda hafi hann skrifað illa um sig og skaðað hagsmuni sína!
Hægt væri að nálgast persónu ritstjóra DV úr annarri og jákvæðari átt og spyrja hvað gott kunni að hafa leitt af störfum undir verkstjórn hans. Niðurstaðan úr þeirri leit yrði sú að á DV hafi margt verið leitt fram í dagsljósið í fjármála- og stundum spillingarheimi Íslands, sem ella hefði legið í þagnargildi.
Hefðum við viljað það?
Ekki ég.
Átökin um DV koma okkur öllum við. Þau snúast um það hvort peningar, og þá handhafar þeirra, eigi að ráða fjölmiðlaumfjöllun í landinu. Þannig er það því miður í of ríkum mæli og virðist fara vaxandi.
Það er áhyggjuefni.