Fara í efni

HERBRAGÐ Í ÞÁGU FJÁRMÁLAFYRIRTÆKJA?

leiðréttingar lógó
leiðréttingar lógó

Samskipti manna eru í sívaxandi mæli að færast yfir í rafrænt form. Á netinu  eiga sér stað viðskipti, upplýsingum er miðlað og þjónusta er veitt, meðal annars af hálfu opinberra aðila. Ekki nóg með það, netið kemur til með að verða notað í aukum mæli í kosningum og atkvæðagreiðslum um einstök málefni. Ljóst er að mikið liggur við að rafræn samskipti séu örugg. Þetta liggur í augum uppi í viðskiptum en þá ekki síður í rafrænum kosningum eða þegar miðlað er viðkvæmum persónuupplýsingum.

Þess vegna á að styrkja Þjóðskrá

Þegar ég gegndi embætti innanríkisráðherra var yfirumsjón þessa málaflokks flutt í Innanríkisráðuneytið þótt öll ráðuneyti kæmu jafnframt beint og óbeint að þessum málum eðli máls samkvæmt. Sýn mín á málið var mjög ákveðin. Aðgangur og auðkenning í netheimum væri grunnþjónusta sem hið opinbera ætti að hafa umsjón með hvað varðar eigin þjónustu. Aldrei mætti það gerast að ríki og sveitarfélög yrðu undirseld fallvöltum fyrirtækjum á markaði í þessum efnum. Þess vegna væri það grundvallaratriði að styrkja þá stofnun sem hefur auðkennismálin á sinni könnu þannig að hún gæti sem best haldið utan um þau. Þessi stofnun er Þjóðskrá. Þannig varð til Íslykillinn. Þar eru nú 132 þúsund einstaklingar skráðir og 2500 fyrirtæki!

Bankamenn - sumir -  vilja ráða

En það voru ekki allir sáttir við þessa þróun. Bankamenn -  sumir hverjir - vildu hafa þessa þjónustu  á sínu forræði og höfðu þeir um nokkurt skeið fengið stuðning  ýmissa stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunabaráttu sinni. Varð því uppi fótur og fit í fjármálaráðuneyti og hjá embætti skattstjóra - sem ég aldrei fyllilega skildi - þegar farið var að styrkja aðkomu hins opinbera í þessum efnum.

Hver tók þessa ákvörðun?

Við ríkisstjórnarskiptin var þessi þráður tekinn upp  að nýju og nú tekur yfir allan þjófabálk þegar ríkisstjórnin, hluti hennar eða embættismenn, taka þá ákvörðun að gera það að skilyrði fyrir skuldaleiðréttingu að notast sé við rafræn auðkenni bankanna eða veflykil ríkisskattstjóra en Íslykill Þjóðskrár ekki einu sinni valkostur! Nú hefur síðan lykill skattstjóra verið tekinn út og auðkenni bankanna gert að skilyrði. Með öðrum orðum, ríkið ætlar án haldbærra raka að hafna eigin þjónustu! (Rökin eru þau að ef menn ætli að undirrita gjörningana rafrænt,  þá þurfi að fara í gegnum undirritunarkerfi bankanna í stað þess að hafa þann hátt á sem Skatturinn hefur viðhaft og viðurkennt  í hálfan annan áratug að menn komi staðfestingu á framfæri með ígildi rafrænnar undirritunar.  Þetta vilja menn nú gera að skilyrði í samskiptum þar sem ekki er verið að láta neina fjármuni beint af hendi!) Þar með er ríkið að þvinga fólk inn á brautir sem það hugsanlega ekki hefði haldið inn á. Það sem verra er, hér virðist skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar beinlínis notuð í hagsmunabaráttu einkaaðila.  Hver tók þessa ákvörðun og á hvaða forsendum var það gert? Þetta vil ég fá að vita og mun ég grennslast fyrir um þetta þegar vettvangur til fyrirspurna skapast á Alþingi.

Ríkið verður að vera óháð öðrum hvað grunnstoðir varðar 

Nú er það fullkomlega skiljanlegt að fjármálastofnanir, Síminn og  hugsanlega fleiri aðilar komi sér upp auðkennum sem treystandi er á. Það er líka eðlilegt og æskilegt að ríki og sveitarfélög taki gild auðkenni þessara aðila eftir atvikum. Slíkt stuðlar að sveigjanleika og stöðugri þróun. Nákvæmlega þetta gerir Þjóðskrá. En ríki og sveitarfélög verða eftir sem áður að bjóða jafnframt upp á eigin lausnir á eigin forsendum þegar þess er nokkur kostur og á slíkum forsendum þarf að þróa þessi kerfi.  
En hið opinbera verður að mínu mati að sjá sjálft fyrir nauðsynlegum auðkennum fyrir allt það fólk sem ekki er í viðskiptum við þessa aðila og vill vera þeim óháð - þegar kemur að því að nálgast þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, að ekki sé minnst á kosningar. Þetta er grundvallaratriði.  Þess vegna þarf að leiðrétta mistökin.

Umræða nauðsynleg

Það á ekki að reyna  að þvinga fólk til að taka upp auðkenni bankanna  - sem mér býður reyndar í grun að hafi ekki verið mistök af hálfu þeirra innan hins opinbera kerfis sem tóku um þetta ákvörðun, heldur rökrétt framhald á því sem á undan er gengið. Þessu mótmæli ég harðlega og hvet til almennrar umræðu um þessi mál. Hér er verið að tala um Ísland framtíðarinnar, á hvað forsendum við höldum inn í rafræna framtíð. Almannaþjónustan þarf að passa upp á sjálfa sig -  lýðræðisins vegna.  

Fréttir og athugsemdir:
http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/09/07/ogmundur-skuldaleidrettingin-notud-i-hagsmunabarattu-einkaadila/

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/07/undirbyr_fyrirspurn_um_audkenni/ 

http://www.ruv.is/frett/segir-rikid-hafna-eigin-thjonustu