Fara í efni

UPPLÝSINGAR Í STAÐ ALHÆFINGA

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24. 08.14.
Þegar Bandaríkin hafa ráðist inn í ríki, Panama, Írak, Líbíu og fleiri, eða íhugað árásir á önnur svo sem Sýrland, eða komið Kúrdum til hjálpar gegn ISIS nú nýlega, þá sér heimspressan til þess að við fáum alla vega nasasjón af mismundi skoðunum heima fyrir um ágæti hernaðaríhlutunar hverju sinni. Sama á við um Bretland, Frakkland, Þýskaland og fleiri ríki þar sem hefð er fyrir lýðræðislegum átökum og opinni fréttamennsku. Það má vissulega halda því fram að oft fari lítið fyrir frásögnum af efasemdum, gagnrýni og andspyrnu. Þannig fór fréttin ekkert mjög víða að  það hefðu að öllum líkindum verið Bretar og Þjóðverjar sem sáu stjórn Assads Sýrlandsforseta fyrir eiturefnunum sem síðar voru notuð gegn andspyrnunni í Sýrlandi. Þá er það ekki mikið rætt að Tyrkir kunni að hafa greitt fyrir vopnaflutningum yfir landamærin til Sýrlands þar sem viðtakendur hafa verið ofbeldis-íslamistarnir í ISIS.

En þótt ekki hafi alltaf farið ýkja mikið fyrir upplýsingum sem ráðandi öflum í okkar heimshluta þykja óþægilegar þá eru þær yfirleitt einhvers staðar á sveimi. Fyrir bragðið verða Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Þýskland ekki einsleit og viðbrögð okkar við gjörðum Bandaríkjamanna, Breta, Frakka og Þjóðverja fyrir bragðið ekki eins alhæfingarsöm. Við vitum að Bush og Blair töluðu ekki í nafni allra Bandaríkjamanna og Breta.

En það gerir forsætisráðherra Ísraels ekki heldur. Benjamin Netanyahu talar ekki fyrir hönd allra Ísraela, hvað þá allra gyðinga. Þeir eru margir hverjir einhverjir eindregnustu andstæðingar þjóðernisofsóknanna á hendur Palestínumönnum. Nýlegar skoðanakannanir í Ísrael benda til vaxandi andstöðu við hernaðarofbeldið á Gaza. Til eru þeir fjölmiðlar sem segja frá mismunandi sjónarmiðum og afstöðu á meðal Ísraela. Þeir greina jafnframt frá því að andspyrna í Ísrael gegn stríðsrekstri ríkisstjórnarinnar verði sífellt torveldari bæði vegna ofsókna frá hendi stjórnvalda og einnig, og þá ekki síður, pólitískra ofbeldishópa sem berji miskunnarlaust alla gagnrýni niður. Flestir þekkja til innbyrðis ágreinings á meðal Palestínumanna en þar er að sjálfsögðu nákvæmlega sama uppi á teningnum og í öðrum samfélögum, mismunandi stefnur og viðhorf, friðsamt fólk og ofbeldisfullt.

Um allt þetta þurfum við að fá að vita. Ekki til þess að draga niður í mótmælum okkar gegn Ísraelsríki heldur til að koma í veg fyrir að við dæmum alla Ísraela eftir morðóðri ríkisstjórn þeirra; með öðrum orðum að við komum ekki fram við þá eins og ísraelsk stjórnvöld koma fram við Palestínumenn -  á grunvelli ofbeldis og kynþáttafordóma.