Fara í efni

FINNAFJÖRÐUR MEÐ MÖRGU FÓLKI

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10.08.14.
Ég hef áður getið þess hér að ég hef haldið mig í San Francisco yfir hásumarið - í góðu yfirlæti - enda Kaliforníubúar upp til hópa  vinsamlegir, hjálpfúsir og gestrisnir.

Umhugsunarvert er hve saga iðnaðarþjóðfélags er stutt í Kaliforníu. Sú var tíðin að Indíánar bjuggu hér en án þess þó að skilja eftir sig miklar minjar. Suð-vesturhluti núverandi Bandaríkjanna heyrði um skeið til nýlenduveldis Spánar, síðar Mexíkó og var það ekki fyrr en 1850 að Kalifornía varð ein stjarnan í bandaríska fánanum sem fullgilt aðildarríki Bandaríkja Norður Ameríku. Um þetta leyti hefst uppbyggingin við San Francisco flóann, knúin áfram af gullæðinu sem rann á menn 1848 þegar gull fannst á þessum slóðum. Á mælikvarða mannkynssögunnar gerðist þetta nánast í gær!

Aðeins fjórum árum eftir að Kalifornía varð ríki í Bandaríkjunum, fæðist norður í Skagafirði Björn Bjarnason. Hann var afi konu minnar. Amma hennar, Stefanía,  var heldur yngri. En með öðrum orðum, svæði sem nú er  þriðja fjölmennasta búsetusvæði Bandaríkjanna var nánast ekki komið á kortið þegar afa- og ömmukynslóð minnar kynslóðar var að vaxa úr grasi. Þetta minnir okkur á með hve miklum ógnarhraða þróun getur átt sér stað.

Atvinnulíf er fjölbreytt við San Francisco flóann  - hér er margvíslegur iðnaður, nokkra öflugustu háskóla heims er hér að finna, tölvutækninni var að hluta til ungað út í dalverpi suður af San Francisco þar sem fjöldi hugbúnaðarfyrirtækja hefur síðan  búið um sig. Svo er hér gríðarlega fyrirferðamikil höfn með tilheyrandi krönum og breiðum af gámum - að ógleymdu öllu fólkinu sem við höfnina starfar og myndar hér þéttbýli.  Gámabreiðurnar minna svolítið á tölvumyndirnar sem við höfum séð á sjónvarpsskjánum frá Finnafirðinum okkar norður í landi þar sem Kínverjar, Rússar og Þjóðverjar vilja fá að koma upp risaumskipunarhöfn. Nema að á myndunum sem okkur hafa verið sýndar vantar allt fólkið sem á að vinna við höfnina. Það hefur gleymst að setja byggðina á tölvuteikningarnar frá Finnafirði.

Fagnað var ákaft í sjálfum Ráðherrabústaðnum þegar undirritaður var samningur við erlenda braskara sem vilja kanna hve gróðavænlegt það væri að gera stærstu höfn á Norðurslóðum í Finnafirði. Þjóðinni var sagt að þetta væru góð tíðindi fyrir Íslendinga. Ég held ekki. Þetta kunna hins vegar að vera góð tíðindi fyrir atvinnulaust fólk í útlöndum sem vill vinna í umskipunarhöfn á norðaustur horni Íslands. Ef þetta verður að veruleika á annað borð gæti þróunin orðið ör og haft í för með sér miklar breytingar. Þegar afa- og ömmubörnin eru vaxin úr grasi gæti Finnafjörður verið orðinn að stórri hafnarborg. Ég hef meiri efasemdir um að hátæknin og háskólarnir af San Francisco gæðastuðli  fylgi með í pakkanum. Þó gæti það vel verið.

En hver eru markmið okkar, græða peninga og þá sama hvernig? Fjölga fólki og þá sama hvernig? Eða ætlum við að grandskoða í hverju lífsgæði okkar eru fólgin og taka yfirvegaðar ákvarðanir í samræmi við það? Þarf ekki að ræða markmiðin áður en skrifað er undir og fagnað?