Fara í efni

FÓRUM UM GULLNA HLIÐIÐ Í DAG

Goden gate 3
Goden gate 3

Við Valgerður kona mín, ókum yfir Golden Gate brúna við San Francisco í dag. Brúin var byggð á árunum 1933-7. Þegar hún var opnuð var hún lengsta hengibrú í Bandaríkjunum og reyndar heiminum öllum en hefur í síðari tíð þokast niður lengdarmælingar-afreks-listann. Hér um slóðir fullyrða menn, að hvað sem lengdinni líður, þá sé Golden Gate brúin allra brúa fegurst og held ég að svo geti vel verið.

Gullna hliðið - the Golden Gate - er sund sem liggur frá hinum mikla San Francisco flóa út á sjálft Kyrrahafið. Ég stóð í þeirri trú að nafngiftin tengdist gullgreftrinum og æðinu sem við hann var kenndur um miðja 19. öldina en svo er ekki. Það mun hafa verið landkönnuðurinn, hermaðurinn, baráttumaðurinn gegn þrælahaldi og frambjóðandi Repúblikana til forseta í Bandaríkjunum, John C. Frémont, sem árið 1846 gaf sundinu heiti sitt árið 1846. Það var áður en hinn gullni málmur uppgötvaðist á þessu svæði. Rétt áður.

Hvað sem viðkemur gullnum hliðum vestur á ströndum Norður-Ameríku þá kom Davíð Stefánsson að sjálfsögðu upp í hugann og hans íslenska Gullna hlið.

Hjá okkur Völu var förinni ekki heitið upp í sömu hæðir og „sálinni hans Jóns míns" forðum tíð - þótt það verði að segjast eins og er að Golden Gate brúin rís yfir sundið sem hún er kennd við í ógnvænlegri hæð og margir hafa stokkið þaðan niður til að komast eitthvað annað og helst upp að sjálfsögðu, vel á annað þúsund manns.

Í dag upplifðum við fegurð tækniundursins, sem Golden Gate brúin óneitanlega er, þegar við þeystum yfir sundið í sjötíu og fimm metra hæð eftir rennsléttri steypunni, sem borin er uppi af strengjum sem tengjast ógnarsterkum þverböndum sem aftur teygja sig eftir festingu í dumbrauða háturna brúarinnar. Þeir voru sveipaðir dulúð þar sem þeir hurfu okkur sjónum í þokunni sem umlék þá.