Fara í efni

FISKALAND VANN

Þýskaland 1
Þýskaland 1


Ögmundur Óskar Jónsson, þriggja ára, lýsti því yfir þegar leið á heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu að hann héldi með Fiskalandi. Ögmundur Óskar er nýorðinn þriggja og áhugasamur um allt sem er að gerast.

Enginn vafi leikur á að velgengni í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu er gríðarleg auglýsing, nær augum og eyrum allra - ungra sem aldinna -  og eru bæði bisnismenn og stjórnmálamenn meðvitaðir um það. Þýska sendiráðið hefur leitað eftir samstarfi við KSÍ um að bjóða Íslendingum að fylgjast með úrslitaleiknum!

Sigurvegarunum eru allir vegir færir. Kannski ekki alveg. Breski grínistinn Ricky Gervais sagði eftir að Brasilía tapaði 7-1 fyrir Þýskalandi að nú yrðu Þjóðverjar að halda lágum prófíl í Brasilíu um sinn eins og þeir hefðu stundum þurft að gera áður: „This won't be the first time that thousands of Germans will have to lie low in Brazil for a while for their own safety." Napurt!

En eins og sigurinn er sætur þá getur tapið verið jafnsúrt. Þannig er múltí-milljarða fjárfesting brasilískra stjórnvalda til undirbúnings keppninni - á kostnað uppbyggingar í vanmegnugri almannaþónustu - að snúast upp í andhverfu sína. Sigur yfir Þjóðverjum, að ekki sé minnst á sigur í heimsmeistarakeppninni, hefði án efa fært stjórnendum í Brasilíu vinsældir. Þeim mun hrikalegra var niðurlægjandi tap - meira og verra en dæmi eru um áður í slíkri keppni. Nú gera margir stjórnmálaskýrendur því skóna að heimsmeistarakeppnin eigi eftir að reynast brasilísku stjórnmálaelítunni dýrkeypt.

Annars geta íþróttakeppnir verið af hinu góða. Þær skemmta okkur og geta orðið eins konar samnefnari. Einsog Eurovision. Jafnvel þau sem gefa lítið fyrir þá keppni fylgjast engu að síður með henni - ef ekki í nálægð þá í fjarlægð - og hafa gaman af. Þó ekki til annars en að njóta stemningarinnar. Spurning er svo hvað stemningin má kosta mörg hundruð þúsund milljarða. Það mun verða til umræðu í Brasilíu á næstunni. Síður í Fiskalandi.

Athyglisverð grein: http://readersupportednews.org/opinion2/277-75/24679-focus-why-brazilians-get-to-punish-their-politicians-for-world-cup-fiasco