ER EINKAVÆÐINGARSVINDLIÐ AÐ AFHJÚPAST?

The Guardian
Fyrr í máuðinum birtist í breska stórblaðinu Guardian afar góð grein eftir Seamus Milne um einkavæðingu í Bretlandi og víðar (sjá slóð að neðan).

Greinin er góð vegna þess hve markviss hún er og hve rækilega er vísað í heimildir. Til dæmis í þá staðreynd að nánast alltaf hefur almenningur verið andvígur einkavæðingu. Það eru stjórnmálamennirnir sem hafa verið haldnir ofurtrú á markaðinn og gengið þvert á almannavilja. Í Bretlandi hefur þessi verið raunin allar götur frá Thatcher. Hefur lítill munur verið á framgöngu Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins, einkum í formannstíð Tony Blairs í síðarnefnda flokknum.   

Í greininni eru tekin dæmi af því hvernig einkavæðingin hefur komið skattgreiðendum í koll, komið neytendum í koll, starfsfólki í koll og samfélaginu í heild sinni í koll. Samt hefur verið haldið áfram! Einkavæðing járnbrautanna í Bretlandi hefur til dæmis gefist afar illa á sama tíma og ríkisreknar lestir hafa staðið sig vel með tilliti til þjónustu og að veita arði í ríkissjóð. Sama um vatnið og orkuna. Þar sem einkavætt hefur verið hefur það gefist illa. Þar sem það hefur verið látið ógert, hefur farið vel. Vatnsveitur í Skotlandi eru teknar sem dæmi um hið síðara.

En í ljósi þessarar reynslu er eðlilegt að spurt sé hvað Íhaldsstjórn Camerons vilji taka til bagðs. Hún vill ganga lengra, einkavæða enn meira í mennta- og heilbrigðiskerfinu en þegar hefur verið gert! Og fyrst opinberu lestirnar bera sig og skila góðri þjónustu og arði, þá er rætt um að einkavæða þær! Kratarnir náttúrlega samir við sig og vita ekki í hvorn fótinn á að stíga og segja að auðvitað verði hið opnbera þá að keppa við einkabransann, þeir vilji ekki vera pólitískir!

Af lestri greinarinnar má hins vegar sjá hverjir eru pólitískir í þröngpólitískum anda kennisetningar, þeim anda sem aldrei spyr um árangur, bara rétttrúnað.
Í aldarfjórðung hefur einkavæðing verið líkust trúarboði. Alveg sama hverjar afleiðingarnar eru, er áfram haldið. Svo er greinilega enn í Bretlandi. Hið gleðilega við lestur greinar Seamus Milne í Guardian er hins vegar að þar er því spáð að tímarnir kunni að vera að breytast, að svindlið sem einkavæðingin byggir á sé að afhjúpast. Megi gott á vita.

Sjá grein:  http://www.theguardian.com/commentisfree/2014/jul/09/tide-turning-against-privatisation

Fréttabréf