Fara í efni

BJARNI, ELÍN OG ERÍKUR

CostCo og kó
CostCo og kó


Bjarni Benediktsson og Elín Ragnheiður Árnadóttir eru yfir sig hrifin að hingað til lands kunni að vera væntanleg enn ein verslunarkeðjan, nefnilega hinn bandaríski Costco hringur sem heimtar leyfi til að selja lyf, brennivín og hrátt kjöt hér á landi.

Fyrir öllu þessu erum við jákvæð, sagði iðnaðar/viðskipta- og ferðamálaráherrann, Ragnheiður Elín - en leiðrétti sig síðan og sagði að ekki væri rétt að veita einu fyrirtæki sérstakar undanþágur. Svo var engu að síður á henni að skilja að markmið Costco væru öll eftirsóknarverð, göfug og góð.

Og fjármálaráherrann, Bjarni,  sagði að þetta væru afskaplega gleðileg tíðindi en yrði að skoða í langtímasamhengi þar sem eitt yrði yfir alla að ganga.  En auðvitað deildi íslensk verslun hugsjónum varðandi brennivínið, lyfin og kjötið með Costco. Og formaður Sjálfstæðisflokksins bætti því við að tilkoma þessarar verslunarkeðju myndi auka samkeppni og fjölbreytni á Íslandi.

Tilkoma risakeðja hefur vissulega orðið til að færa niður verð á vöru í krafti stærðarhagkvæmni. Öðrum og smærri verslunum hefur fyrir vikið verið ýtt út af markaði. Örfáar samsteypur keppa síðan sín á milli.  Sú samkeppni hefur sína kosti þótt tilhneigingin virðist jafnan vera sú að samkeppnisaðilar svokallaðir, lagi sig hver að öðrum, sjálfum sér, en síður neytendum til góða.  Hitt er svo ljóst að þessi þróun hefur ekki stuðlað að fjölbreytni.

Þar er komin tengingin við Eirík - gítarsnillinginn, Eric Clapton, sem nýlega lýsti því yfir að hann kynni senn að hætta tónleikahaldi. Hann væri að eldast en svo væri líka hitt að heimurinn væri sér ekki eins spennandi og eftirsóknarverður og áður var. Ástæðan væri sú að allt væri að verða einsleitara, hvert land á fætur öðru í sívaxandi mæli að fá ásýnd bandarískra verslunarhátta. Þessi þróun væri sýnilega farin að draga úr fjölbreytileika. Ekki væri þetta eftirsóknarverð þróun nema síður væri.

Ætli sé ekki eitthvað til í þessu.

Í Bandaríkjunum er vissulega til margt  það besta en einnig það versta. Óþarfi þykir mér að fagna því versta. Þar er ég sammála Eiríki en ekki Bjarna og Elínu.