Fara í efni

ÁTVR Í ÞÁGU NEYTENDA OG SAMFÉLAGS !

Vínbúðin 2
Vínbúðin 2

DV gerði mér og lesendum sínum þann greiða að vitna í pistil sem ég skrifaði í síðustu viku um hugmyndir sem fram hafa komið um að fara með smásöluverslun á áfengi inn í matvörubúiðr. (http://www.dv.is/frettir/2014/7/12/ogmundur-um-afengisfrumvarp-haerra-verd-og-minna-urval/) Ástæðan fyrir því að ég tala svona digurbarkalega um eigin skrif er að þar eru settar fram tölulegar upplýsingar til mótvægis við málafylgju þeirra sem vilja markaðsvæða smásöluverslun með áfengi. Málefnaleg umræða um þetta efni er gríðarlega mikilvæg því breytingar á kerfinu hafa miklar afleiðingar í för með sér, fjárhagslegar og samfélagslegar.

Sérstaklega á landsbyggðinni

Áður hafa slíkar hugmyndir komið fram en ekki náð fram að ganga. Ég hef jafnan haldið því fram að breytt fyrirkomulag yrði til óhagræðis fyrir neytendur, sérstaklega á landsbyggðinni, slæmt fyrir ríkissjóð og fráhvarf frá heilbrigðisstefnu sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvetur til, nefnilega að aftengja gróðahyggju og sölu á áfengi. Þeir sem telja sig vera fulltrúa framtíðarinnar með því að berjast fyrir markaðsvæðingu áfengissölu fara villur vegar.

Gamaldags?

Engu að síður er viðkvæðið þetta: Hvílík fornaldarhyggja - og forræðishyggja í ofanálag að vilja halda í ríkisrekstur á þessu sviði - er virkilega ekki komið árið 2014? Þá er sagt að stjórnmálamenn eigi ekki að stýra þessum málum, við eigum að fá að velja hvar við kaupum áfengi sem hverja aðra neysluvöru. Þessu svara ég á þann veg að stjórnmálamenn sem hafa það hlutverk að setja lögin í landinu eiga að sjálfsögðu að gera það sem þeir telja að nái tilætluðum tilgangi á sem markvissastan hátt. .

Heilbrigði skiptir máli og kostar sitt!

Þegar það svo blasir við ágangur verslunareigenda gengur út á að ná til sín fjármunum sem ella rynnu í ríkissjóð án þess að neytendur séu betur settir - þvert á móti ver settir - þá ber okkur stjórnmálamönnum að horfa til þess. Að auki eru heilbrigðissjónarmiðin heldur ekki léttvæg - snúa að heilbrigði í samfélaginu og snerta auk þess skattpyngju okkar allra. Áfengisvandinn er ekki ókeypis!

Áfengi er ekki dýrt vegna ÁTVR!

Áfengi á Íslandi er dýrt. Það er hins vegar EKKI vegna álaganigar ÁTVR heldur skattlagningar ríkisins. Í fyrri pistli mínum (https://www.ogmundur.is/is/greinar/vin-i-matvoruverslanir-i-thagu-verslunareigenda-eda-neytenda ) nefndi ég að álganing ÁTVR væri 18% á léttvín og bjór og 12% á sterkt áfengi skv. lögum. Þetta er allt sem ÁTVR tekur af sölu áfengis. Álagningin á áfengið ásamt heildsöluálagningu ÁTVR á tóbakið (18%) dugar fyrir rekstrarkostnaði ÁTVR og arðgreiðslum í ríkissjóð.
Þess má geta að álagning smásala á tóbak er oft yfir 30% og kaupmenn hafa marglýst því yfir að álagningartölur ÁTVR myndu ekki duga þeim. Hvað þýðir það? Að sjálfsögðu hærra verð nema ríkið lækki skattprósentur sínar. Það er bara allt önnur umræða..

Hagnaður í ríkissjóð

Á árinu 2013 var hagnaður ÁTVR rúmir 1,3 milljarðar og arðgreiðslan í ríkissjóð var 1,2 milljarðar. Þannig fær ríkissjóður allan hagnaðinn af rekstri ÁTVR og þannig á það að vera. Með því að hafa ríkisrekna verslun er tryggt að allur ágóði áfengissölunnar fer til ríkissins sem notar peningana meðal annars til þess að greiða fyrir kostnað samfélagsins vegna misnotkunar á áfenginu. 

Ríkissjóður fær hins vegar miklu meira í sinn hlut. T.d. fyrir árið 2013 var hlutur ríkissjóðs af sölu ÁTVR eftirfarandi:

Magngjald tóbaks:           5,5 milljarðar
Áfengisgjald:                     8,8 milljarðar
Arður frá ÁTVR:                1,2 milljarðar
VSK                                     7,0 milljarðar

Samtals gerir þetta tæpa 22,5 milljarða fyrir árið 2013.


ÁTVR fyrirkomulagið best!

Nú má spyrja hvort eðlilegt sé að ríkissjóður hagnist á áfengissölu. Er það móralskt rétt? Að mínu mati þarf að byrja á annarri spurningu, á yfirleitt að leyfa sölu áfenfgis? Ef svarið er játandi og ég er því sammála fyrir mitt leyti, þá er tvímælalaust betra að hafa dreifinguna í höndum ríkisins en einkaaðila af fjárhagslegum ástæðun en einnig heilsufarslegum.
Er það vegna þess að ég hafi litla trúa á markaðslögmálunum? Nei, það er vegna þess að ég hef það mikla trú á þeim að ég tel að á markaði yrðu menn enn duglegri að koma áfengi ofan í þjóðina en nú er raunin með söluna í höndum ÁTVR - sem stöðugt sætir gagnrýni - m.a. annars af minni hálfu  - þegar okkur þykir hún of markaðssækin og ágeng.

Til hvers?

Ef grundvallarbreyting á þessu fyrirkomulagi gerist síðan með tapi fyrir ríkissjóð, minna úrvali og lakari þjónustu fyrir neytendur, þá spyr ég til hvers var unnið? Hagsmunum hverra er eiginlega verið að þjóna?