Fara í efni

AÐ ÞYKJA VÆNT UM LANDIÐ SITT

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 13.07.14.
Fyrir nokkrum árum kom til Íslands ágætur kunningi minn, formaður svissnesku bændasamtakanna ásamt konu sinni. Við hjónin fórum með þau víða um. Hann hreifst af landi og þjóð. Á Nesjavallaleið var stoppað fyrir myndatökur. Frúin myndaði fjallahringinn. Hann myndaði hitavatnspípurnar.  Við Deildartunguhver endurtók sagan sig. Frúin myndaði heitt vatnið streyma fram. Hann vildi fá að komast í dæluhúsið til að mynda þar. Átti hann engin orð yfir þeirri stórkostlegu hugkvæmni og tækni við að nýta hverinn til að hita upp híbýli manna í fjölmennum byggðum.

Við komum á bóndabæ í Húnavatnssýslu, mikið myndarbýli, þar sem bjuggu frumkvöðlar í íslenskum landbúnaði. Íslenski bóndinn lýsti því að gott veðurfar væri á þessum slóðum. Það var dumbungur og svalt í lofti. Hinn sólbrúni Alpabúi brosti efins. Íslenski bóndinn rétti þá af kúrsinn og sagði að þegar allt kæmi saman góð gróðurmold eins og hann byggi við og íslenskar aðstæður þá væri útkoman farsæl. Nú brosti svissneski bændahöfðinginn ósviknu brosi.

Nokkru eftir þessa Íslandsferð hittum við þessi hjón á þeirra heimaslóð. Nú voru það þau sem sýndu okkur búgarðinn sinn, smáan en fallegan. Og stolt óku þau með okkur um Júrafjöllin og fóru með okkur á bændabýli þar sem formaður bændasamtakanna þekkti hvern mann.

Hann minntist Íslandsferðarinnar. Þið eigið magnaðar náttúrugersemar sagði hann og tæknina hafið þið nýtt undursamlega. En eftirminnilegastur væri þó bóndinn sem elskaði landið sitt. Hann skildi ég svo vel, bætti hann við. Það er svo gott og heilbrigt að koma auga á það góða í umhverfi sínu og kunna að meta landið sitt.

Þessi orð hafa stundum komið upp í hugann eftir að það fór að tíðkast hér á landi að gera hróp að fólki sem leyfir sér að segja að því þyki vænt um Ísland og það sem íslenskt er. Slíkt þykir bera vott um þjóðrembu og jafnvel útlendingahatur!

Sömu aðilar verða miður sín þegar minnt er á að á Íslandi er minna um dýrasjúkdóma en víðast hvar annars staðar í heiminum. Þetta er reynt að hrekja í leiðurum fréttablaða og herskarar bloggara naga hvern þann sem vogar sér að halda þessum sanneika á loft.

Hér er þó ekki um huglægt mat að ræða heldur hlutlægt sem hægt er að sýna vísindalega fram á enda afrakstur markvissrar einangrunarstefnu sem stundum hefur verið umdeild. En hún hefur skilað árangri: Íslensk matvara er heilnæmari en almennt gerist erlendis. Og það má tala um það. Það má líka segja að okkur þyki vænt um Ísland! Hvers vegna ættum við ekki að gleðjast yfir því sem gott er?