Fara í efni

RÓTTÆKNI OG ÍHALDSSEMI

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 01.06.14.
Á mörgum sviðum þurfum við á róttækri nýhugsun að halda. Ég er ekki endilega að biðja um glænýja hugsun, sætti mig ágætlega við endurvinnslu á góðum hugmyndum sem hafa reynst vel. Ég nefni sem dæmi margvíslegan félags- og samvinnurekstur. Hugmynd, sem Þorleifur Gunnlaugsson, oddviti Dögunar í Reykjavík, hefur talað fyrir, um borgarbanka þykir mér djörf og umhugsunarverð.

Sparisjóðirnir voru reistir á þessari hugsun á sínum tíma, fjármálastofnanir til að þjóna nærsamfélaginu og svo langt áttu þeir að vera frá hvers kyns gróðahyggju að stofnfjáreigendur settu sér þá reglu og bundu hana í lög, að ef þeir tækju stofnfé sitt út, fengju þeir aðeins upphaflega inngreiðslu með eðlilegum vöxum.

Á þessum forsendum fjárfesti velvildarfólk byggðanna - þar á meðal stjórnmálamenn -  í sparisjóðnum „sínum".  Í gróðærinu fundu veiklundaðir menn það út að hagnast mætti vel á braski með stofnféð. Þá kom í ljós að margir velunnaranna góðu reyndust fyrst og fremst velunnarar eigin pyngju.
En ef mannkynið gæfist alltaf upp gagnvart breyskleika einstaklinga hefðum við ekki þokast það fram á við í aldanna rás, sem við þó höfum gert.

Borgarbankamenn hinir nýju hafa rökstutt hugsun sína á þá lund, að sá hagnist vel sem varðveitir fjármuni borgarinar og borgarstofnana og veiti þessum fjármunum farvegi í hvers kyns umsýslun. Og í framhaldinu er spurt, hvers vegna ættu borgarbúar ekki að njóta góðs af slíkri starfsemi? Rökstuðningnum fylgir tilvísan til þess að þeim borgum í Bandaríkjunum sem hafa þennan hátt á fari fjölgandi.

En hvað með íhaldssemina? Getur verið að hún eigi einhvern tímann rétt á sér?

Ég slæ þessa þanka inn í tölvu á keyrslu. Nú blasir Suðurlandsundirlendið við af Kambabrún. Ég tek fram að konan mín keyrir! Þjóðvegurinn liggur í sveig um Ölfusið. Þarna hafa menn viljað þráðbeinan reglustrikuveg og helst fjórbreiðan enda bjóði umferðin ekki upp á annað! Það eru ýkjur.

Íslendingar verða að venja sig af því að heimta rándýra vegaslaufu í byggð ef þeir þurfa að hinkra í tuttugu sekúndur á ljósum og að sama skapi þurfum við að venja okkur á að keyra hægar þessa tvo tíma sem umferðin verður hæggengari í grennd við sumarbústaðabyggðir á mestu háannatímum. Víðast hvar er vandinn ekki meiri af völdum umferðarþunga.

Áður en við byggjum upp alla vegi og gerum þá fjórbreiða og úr tengslum við landslagið, skulum við minnast þess að til eru þeir staðir á landi voru sem ekki eru aðeins fagrir á íslenskan mælikvarða heldur einnig á heimsvísu.

Þegar föndrað er við slíka náttúru getur íhaldssemi  verið kostur.