Fara í efni

EIGNARNÁM ER SVARIÐ

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 10.06.14.
Einkaeignarréttinum eru settar ákveðnar skorður hvað náttúruna áhrærir. Þannig getur landeigandi ekki meinað neinum að njóta náttúruundra þótt hann eigi landið sem að þeim liggur. Hann getur takmarkað umgang ef land liggur við skemmdum en ekki krafist gjalds sem skapar honum arð. Þetta segja landslög og það sem meira er, yfir þúsund ára saga Íslendinga er samfelld viljayfirlýsing um að náttúran sé okkar allra. Síðan er allt annar handleggur að landeigendur geta nýtt hugvit til að hagnast á náttúrugæðum með því að veita þjónustu og hagnast þannig á eigin sköpun.

Land tekið undir vegi með eignarnámi

Eignarnám á landi er ekki eftirsóknarvert í sjálfu sér.  Þó tíðkast það án þess að sérstaklega hátt fari.  Á hverju ári stendur Vegagerðin í samningaþjarki við landeigendur um bætur fyrir lönd sem verða fyrir valinu undir vegstæði. Ef samningar nást ekki er landið tekið eignarnámi og sérstök matsnenfnd úrskurðar bætur. Hjá Vegagerðinni hef ég fregnað, að eignarnám sé tíðara nú en áður var, einfaldlega vegna þess að landeigendur hafi heldur fært sig upp á skaftið í bótakröfum þannig að samningar nást ekki.

Almannahagur ofar einkahagsmunum

Ég neita því ekki að stundum hlýtur samúð okkar að liggja nærri landeigendum þegar fallegt land fer undir veg eða þegar vegalagning eða umferð veldur þeim ama. Fáir hafa þó orðið til að taka upp hanskann fyrir landeigendur hvorki í tjónabótastríði við Vegagerðina eða þegar hverir hafa verið teknir til almannanota eins og gerðist með Deildartunguhver upp úr miðri síðustu öld.
Flestir viðurkenna og virða þá meginhugsun að ríkir almannahagsmunir eigi að vera settir ofar þröngum einkahagsmunum.

Náttúrugersemarnar eru okkar allra

Auðvitað eru mörg tilvik á gráu svæði. Þannig var ég ekki sáttur þegar rætt var um eignarnám undir rafmagnslínur á Reykjanesi fyrir nokkrum vikum. Þar mátti nefnilega deila um vægi almannahags.
Það verður hins vegar varla gert hvað varðar helstu náttúrugersemar Íslands.
Þar er hópur landeigenda, sem eiga land sem að þeim liggur, búinn að bíta það í sig að þeir geti gert þær að féþúfu fyrir sína prívatbuddu. Það er hins vegar mikill misskilningur. Það er hvorki leyfilegt samkvæmt gildandi landslögum að krefjast aðgangseyis að náttúrundrum, nema að tilteknum forsendum  sé fullnægt,  né leyfir það þúsund ára hefð.


Linkind stjórnvalda

Rikisstjórnin hefur sýnt fádæma linkind gagnvart rukkurum  sem að hætti stigamanna stilla sér upp fyrir framan ferðamenn og krefja þá um peninga. Þetta gerðist við Geysi  í vor sem kunnugt er. Þar stöðvaði almenningur rukkarana með því að neita að borga  og er málið nú á leið inn í dómssali að undirlagi stjórnvalda. Það er vel. En í Kerinu í Grímsnesi er aftur farið að rukka og eina sem heyrst hefur frá ríkisstjórninni,  vegna þessara lögbrota, eru yfirlýsingar ferðamálaráðherrans sem segir að hún viti ekki betur en að rukkunin gengi prýðisvel!

Viljum vörn gegn ofbeldi

Við sem teljum gjaldheimtuna vera lögbrot og gangi auk þess þvert á aldagamlar hefðir og reyndar einnig nýrri hugmyndir um almannarétt, hefðum viljað vera varin af stjórnvöldum; varin svipað og almennt er gert þegar rán er framið.
Frá þessum sjónarhóli  - þar sem almannahagur er hafður að leiðarljósi - verður varla sagt að rukkunin gangi vel. En stilli ráðherrann sér upp við hlið þeirra Óskars Magnússonar í Kerinu eða Ólafs H. Jónssonar sem á land í námunda við Dettifoss og fleiri náttúruperlur á Norðausturlandi,  má vissulega til sanns vegar færa að allt sé að komast í réttan farveg. 
Nú fréttist af samningum á Norðausturlandi  við landeigendur við Dettifoss og víðar. Þar er enn haft í hótunum af hálfu landeigenda  um að gjaldtaka hefjist fljótlega á einhverjum stöðum en landeigendur hafi hins vegar ákveðið að fresta  gjaldheimtu við sjálfan  Dettifoss - en aðeins um sinn!

Gripið verði í taumana

Auðvitað ber stjórnvöldum að grípa þegar í stað í taumana almenningi til varnar. Löglausar gjaldheimtur verður að stöðva þegar í stað. Ef menn láta sér ekki segjast er bara um eitt að ræða: Eignarnám! Sjálfum finnst mér fullkomlega eðlilegt að taka allar helstu náttúruperlur landsins eignarnámi. Landeigendum yrði þá greitt sanngjarnt gjald fyrir.
Í trúarbrögðum er talað um náttúruna sem sköpun guðs. Látum það liggja milli hluta. Hitt getum við þó fullyrt að Óskar Magnússon bjó ekki til Kerið í Grímsnesi og Ólafur H. Jónsson skóp ekki Dettisfoss.