Fara í efni

HVAÐ SEGJA FRAMBJÓÐENDUR UM GEYSI

Samtök ferðaþjónustunnar
Samtök ferðaþjónustunnar

Næstkomandi fimmtudag, 10. apríl, verður kosið til formanns í Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF). Tveir aðilar hafa lýst yfir framboði, Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, og Þórir Garðarsson, starfandi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Iceland Excursions - Allrahanda ehf.  Sjá nánar á heimasíðu samtakanna en þar eru tenglar á kynningar þeirra sem í framboði eru.

Yfirskrift aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar að þessu sinni er: „Til móts við nýja tíma - ferðaþjónusta og samfélag". Réttilega er bent á að ferðaþjónustan standi á ákveðnum tímamótum og sé í örum vexti. Á fundinum er ætlunin að horfa til framtíðar og stóru málin rædd.

Þetta er áhugavert en ekki síður hitt að í kynningum frambjóðenda kemur ekki fram hver afstaða þeirra er til gjaldtöku á íslenskum ferðamannastöðum en það er óvéfengjanlega örlagaríkt hvernig á þeim málum verður tekið. Ég hef ekki orðið var við að nokkur fjölmiðill hafi spurt frambjóðendur um afstöðu þeirra.

Ég leyfi mér því að beina tveimur spurningum til frambjóðendanna tveggja og spyrja:

1. Hver er afstaða þín gagnvart náttúruperlum Íslands?
2. Hver er afstaða þín til gjaldtöku sem nú á sér stað við Geysi í Haukadal?

Þessar spurningar sendi ég til Gríms og Þóris og mun ég birta svör þeirra ef þau berast.