Fara í efni

HEIÐURSMAÐUR FALLINN FRÁ

Torfi Ólafsson - minning
Torfi Ólafsson - minning
Margt gott og fallegt var sagt í minningargreinum sem birtust í Morgunblaðinu í gær um Torfa Ólafsson, sem lést undir síðustu mánaðamót, á 95. aldursári.
Torfi var einstaklega félagslega þenkjandi maður. Hann var trúmaður  „svo ágætur og glaðlyndur að hann hlaut að laða fólk að kirkju sinni".  Þannig komst Árni Bergmann að orði í minningargrein sinni um Torfa.
Fallegar voru minningargreinarnar úr ranni fjölskyldunnar og bera þær vott hlýju og væntumþykju.  Barnabörnin segja hann snemma hafi orðið „afalegan"  og borið virðingu fyrir vitsmunalífi barnsins og unglingsins.  
Pétur Gunnarsson, rithöfundur, talar um „félagsheimilið" að Melhaga 4 - þar sem hann oft hafi komið - en þar hafi ríkt  „skapandi þvingunarleysi".
Um allt þetta get ég borið vitni, hinu „skapandi þvingunarleysi „ í nærveru Torfa og svo hinu hve mikla virðingu hann sýndi  börnum og unglingum, reyndar öllu fólki.
Ég var heimagangur á Melhaga 4 þar sem Torfi bjó en sjálfur ólst ég upp á Melhaga 3. Við bræður sem vorum á svipuðu reki og synir Torfa kynntumst honum vel og þeim miklu mannkostum sem þessi heiðursmaður bjó yfir. 
Því miður gat ég ekki verið viðstaddur útför Torfa Ólafssonar í gær en sendi fjölskyldu hans samúðarkveðjur.