Fara í efni

GRÍMSSTAÐIR Á FJÖLLUM: HVER ER ÞINGVILJINN?

Grímstaðir á sölusíðunni
Grímstaðir á sölusíðunni


Huang Nupo, kínverski auðjöfurinnn líkir íslenskum stjórnmálalmönnum við leikara, segir þá reynslulitla borið saman við stjórnmálamenn í sínu heimalandi, Kína, samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins..
http://www.ruv.is/frett/%E2%80%9Eislenskir-radamenn-eins-og-leikarar%E2%80%9C

Enn segist Núpo vilja kaupa á Grímsstaði á Fjöllum. Svo era að skilja að "leikararnir" á Alþingi, sem hann kallar svo, hafi staðið gegn áformum hans. Starðeyndin er sú að málið hefur aldrei komið til kasta Alþingis. Á vilja hins meinta leikhúss hefur aldrei reynt. Sem innanríkisráðherra hafnaði ég hins vegar ósk auðjöfursins um kaupin enda ákvörðunarvaldið hjá innanríkisráðherra. Málið kom aldrei fyrir Alþingi.

Ef til vill er það bara ég sem er hinn reynslulitli leikari! Það er gömul saga og ný að peningar búa til hroka og dómgreindarleysi. Það gerist hér á landi einsog við þekkjum og greinilega einnig austur í Kína. 

Fyrir þinginu liggur óafgreid tillaga um að ríkið festi kaup á Grimsstöðum á Fjöllum. Þingmálið hefur legið óafgreitt á tveimur þingum. Á hinu fyrra var flutnigsmaður Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, á hinu síðara var það ég, umsjónarmaður þessarar heimasíðu, sem flutti málið ásamt Svandísi Svavarsdóttur.

Hvernig væri að láta reyna á vilja Alþingis; fá að vita hver sé vilji íslenskra þingmanna, íslenskra "ráðamanna", þeirra sem Huang Nupó líkir við reynslulausa leikara? Hann segir reyndar í viðtali sem nálgast má á slóð hér að framan að það þurfi að gefa Íslendingum tíma, þetta snúist um ríkisstjórnarskipti, með öðrum orðum, ný ríkisstjórn þurfi tíma!

Við þetta má bæta að flutningsmenn framangreindrar þingsályktunartillögu voru ekki einir á báti. Á annað hundrað Íslendinga úr öllum pólitískum flokkum og utan flokka,  hefur skorað á Alþingi að veita því brautargengi að þjóðin eignist Grímsstaði á Fjöllum, jörð sem er hluti af öræfum Íslands. .
Sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/rikid-kaupi-grimsstadi-a-fjollum 
Myndin er skjáskot, með örlítið stækkuðu letri af sölusíðunni http://grimsstadir.com/index.php?page=home