Fara í efni

ÞAU KALLA ÞAÐ HAGRÆÐINGU AÐ REKA FÓLK

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 14.02.14.
Í kjölfar efnahagshrunsins var gríðarlegum halla á fjárlögum ríkisins mætt með aðgerðum til að rétta ríkisbúskapinn af. Þetta var gert með blöndu af skattahækkunum annars vegar og niðurskurði hins vegar. Niðurskurðurinn var sársaukafullur og í ljós hefur komið að í sumum tilvikum var of langt gengið. Nefni ég þar heilbrigðiskerfið sem varð fyrir svo miklu tjóni að enn sér ekki fyrir endann á afleiðingunum. Hugsunin var engu að síður sú að reyna að koma í veg fyrir niðurbrot; að greinin yrði sveigð en ekki brotin svo samlíking sé notuð. Því miður brotnaði hins vegar margt. Það hefur nú komið berlega í ljós. Mannfækkun á Landspítalanum einum nam a milli fimm og sex hundruð störfum auk þess sem tækjakostur drabbaðist niður.

Niðurskurður er ekki hagræðing

Fyrir þjónustuna við sjúklinga var þetta að sjálfsögðu slæmt að ógleymdu því fólki sem missti atvinnu sína og þar með lífsviðurværið. Í þessum aðgerðum var þó reynt að komast hjá einu: Að niðurskurðinn yrði til þess að stuðla að markaðsvæðingu kerfisins eða auka kostnað sjúklinga. Þar greinir á milli hægri stefnu og vinstri stefnu.
Við reyndum að forðast - alla vega sum hver - að kalla þetta hagræðingu. Þetta var niðurskurður og átti ekki að kallast neitt annað. Hvorki þá né nú.
Og nú er skorið niður í stjórnsýslunni. Beitt gamalli reglustrikuaðferð. Skorið niður óháð málefni eða öðrum tilgangi en þeim einum að fækka fólki og rýra kjör.

Niðurlæging

Að vísu segja mannauðssérfræðingar, sem svo eru kallaðir af illskiljanlegum ástæðum, að reynt sé að útfæra þessar aðfarir af fagmennsku.  Í nafni mannauðsvísinda er fólki miskunnarlaust sagt upp störfum, starfshlutfall skert og fólk þannig niðurlægt út í hið óendanlega. Allt í nafni mannauðs og hagræðingar! Hræddur er ég um að þetta standist illa skoðun. Í Ríkisútvarpinu var margt besta fólkið rekið og sagt að snauta heim. Aðrir eru lækkaðir í launum þvert á samninga og hefð. Skyldu menn almennt gera sér grein fyrir hvað slíkt þýðir fyrir venjulega fjölskyldu sem á í basli við að borga af húsnæðisskuldum sínum?
Ríkisstjórnin réttlætir gjörðir sínar með hagræðingartali en aðfarirnar sýna ásetninginn. Og í bloggheimum tekur fólk undir - eflaust velmeinandi sumt hvert  - og hvetur niðurskurðarfólkið til dáða. Um að gera að fækka opinberum starfsmönnum! Um að gera að reka þá sem flesta.

Varla batnar þjónustan  

Um leið krefst fólk góðrar þjónustu frá hinu opinbera, ætlast til þess að ráðuneytin hafi yfirsýn yfir starfsemi þeirra málaflokka sem undir þau heyra og tryggi ráðdeild í ráðstöfun opinbers fjár. Ýmsir veikleikar hafa verið opinberaðir í hjarta íslenskrar stjórnsýslu undanfarin ár, s.s. veikleikar í eftirliti með fjármálamörkuðum, mengunarmálum og matvælum. Það ætti að vera keppikefli að efla Stjórnarráðið til að sinna stefnumarkandi hlutverki sínu og eftirfylgni. Handahófskenndar uppsagnir innan ráðuneyta hafa því miður óveruleg jákvæð áhrif á fjárhag ríkisins, en gætu haft veruleg niðurrifsáhrif og sýna auk þess algjört stefnuleysi í umbótamálum og hagræðingu í opinberum rekstri.
Væntanlega þarf þá að vera starfsfólk sem sinnir þessum málum. Eða hvað? Eða er meiningin að útvista öllum þessum verkefnum? Það yrði að vísu dýrara fyrir skattgreiðendur, þarf ekki að ræða það?

Áður en gengið er til samninga!

Þarf verkalýðshreyfingin ekki að ræða þetta í komandi kjarasamningum? Þurfa samtök opinberra starfsmanna ekki að hreyfa sig ögn? Þarf ekki að setja hnefann í borðið áður en yfirleitt gengið er til samninga? Á að líða það að vaðið sé yfir fólk á skítugum skónum?
Byrjum á að kalla hlutina réttum nöfnum. Niðurskurðurinn í stjórnsýslunni hefur ekkert með hagræðingu að gera, og byggir ekki á neinni virðingu fyrir mannauði. Þvert á móti, mannfyrirlitningu í verki.