UM FINNAFJÖRÐ, SAMSTÖÐU OG GAGNRÝNA HUGSUN

ORG og samtaðan

Auðvitað er samstaða til góðra verka góð og eftirsóknarverð og vissulega skilar það árangri þegar fólki auðnast að standa saman. Þetta á við um fjölskyldu, hóp, þjóð, þjóðir, mannkynið allt. Samvinna og samstaða hefur í tímans rás margoft skilað árangri. Það þekkjum við úr fjölskyldusögu, stéttabaráttu, þjóðarsögu og að sjálfsögðu mannkynssögunni. Þannig var það ekki einstaklingsframtakið sem kom á fót öflugum vélvæddum útgerðarfyrirtækjum, olli straumhvörfum í verslun í fátæku dreifbýlu landi, setti á laggirnar menntastofnanir, heilbrigðisþjónustu og kom okkur yfirleitt inn í samtímann. Það var fyrir atbeina samvinnu og samstöðu, með samfélagslegu átaki, sem þetta gerðist. Það er svo seinni tíma mál þegar einstaklingarnir fara inn í þessa starfsemi á forsendum eintaklingshyggju. 

Samstaða um markmið, ekki stofnun!

Þessi tónn var svo sannarlega við hæfi í nýársávarpi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. En þó aðeins að vissu marki.
Samstaða er nefnilega ekki takmark í sjálfu sér. Ágæti hennar ræðst af því markmiði sem keppt er að, um hvað samstaðan snýst, markmiðin.
Það er heldur ekki rétt að gagnrýni og deilur þurfi að vera til ills eins og skilja mátti á forsetanum. Gagnrýni á ranglæti, ofríki, kúgun og misskiptingu er ekki af hinu illa. Hún er beinlínis eftirsóknarverð.

Sýnum samstöðu!,  hafa flokksræðismenn oftsinnis æpt á samferðamenn sína á sama tíma og þeir hafa reynt að kæfa gagnrýna og sjálfstæða hugsun þeirra. Þetta vill gerast þegar samstaðan snýst um stofnun en ekki baráttumarkmið. 

Sækir í gamalkunnugt gagnrýnisleysi

Sannast sagna þykir mér nú að nýju sækja í farveg varhugaverðs gagnrýnisleysis. Morgunblaðið er um sumt ágætur pólitískur barómeter. Í fjögur ár var blaðið þjakað af depurð en hafði þó samhliða þunglyndinu uppi gagnrýni á stjórnvöldin nánast á hverjum degi. Þótti mörgum nóg um. Jafnvel þegar vel tókst til við landstjórnina kom Morgunblaðið auga á flís í auga talsmanna Stjórnarráðsins. 
Við ríkisstjórnarskiptin tók Morgunblaðið gleði sína á ný. Nú skín sól í heiði á hverjum morgni í Hádegismóum, þar er nú allt upp á við.
Er þetta gott? Varla. Það er nefnilega ekki allt svona gott og það er ekki allt upp á við. Því fer fjarri! Gagnrýnislitlir fjölmiðlar eru ekki eftirsóknarverðir. Þeir styrkja ekki samfélagið heldur veikja það. Þetta nefni ég í framhjáhlaupi en með skírskotun í mikilvægi gagnrýnnar átaka-hugsunar.  Og Morgunblaðið nefni ég sérstaklega enda hin pólitísku heljarstökk sýnilegri þar en á öðrum fjölmiðlum.

Stundum þarf að takast á

Og ekki er það heldur rétt hjá forsetanum að öll barátta skuli háð í samstöðu með alla um borð. Stundum er nefnilega tekist á um grimma eiginhagsmuni. Þegar slíkt er uppi eru átök beinlínis eftirsóknarverð. Þá verður að takast á. Það mun til dæmis aldrei auðnast að tryggja almannaeign á auðlindum með kvótahafana um borð eða þá sem vilja sölsa undir sig vatnið og orkuna í krafti einkaeignarréttar. Breytingar í samráði við þessa aðila yrðu hvorki fugl né fiskur. Og sennilega verr af stað farið en heima setið.

Hvað var rætt í Bremen?

En tilefni þessa pistils er ekki að taka við bolta forsetans og að ræða kosti og galla samstöðunnar - sem er góð og eftirsóknarverð umræða sem hann á þakkir fyrir að vilja vekja - heldur að vara við Finnafjarðarórum. Mér brá þegar ég heyrði að forseti Íslands hefði átt viðræður við hafnaryfirvöld í Bremen, einni stærstu höfn heimsins og ekki að tilefnislausu, að því er látið er að liggja. Var það vegna þess að Bremen gæti orðið fyrirmyndin að heimshöfn í Finnafirði? Svo er að skilja!

Heimskort Rússa og Kínverja

Ekki veit ég hvað forsvarsmenn hafnarinnar í Bremen höfðu fram að færa. En um Kínverja og Rússa þykist ég vita að ráðamenn þeirra þjóða hafa áhuga á Íslandi - og Finnafirði sérstaklega í seinni tíð, það hefur komið fram -  vegna stærðar og legu landsins. Mér býður í grun að Ísland skipti miklu meira máli á þeirra heimskorti en Danmörk, Svíþjóð og Þýskaland. Fjöldi íbúa er aukaatriði þegar horft er á heimskortið í Beijing, Moskvu og Washington.
Einhver pótíntáti Pútins hafði orð á því nýlega, að Bretland væri ekkert annað en smáeyjaklasi undan fastalandi Evrópu. Þetta þóttu ekkert sérstaklega kursteis ummæli en rökrétt kunna þau að vera hjá þeim sem hugsa glóbalt og langt inn í framtíðina.

Að bjóða rúmum milljarði upp í dans!

Kannski ættum við að reyna að hugsa glóbalt og - nota bene - með okkar hagsmuni, hagsmuni 320 þúsund Íslendinga að leiðarljósi! Þá færum við líka varlega í að bjóða milljarðaþjóðum upp í dans. Það er aldrei að vita hvernig sá dans kæmi til með að enda. 

Þetta skrifaði ég um Finnafjörð í nóvember: http://ogmundur.is/annad/nr/6874/
Her er nýársræða foreseta Íslands: http://www.forseti.is/media/PDF/2014_01_01_Aramotaavarp.pdf

Fréttabréf