TVÆR RANNSÓKNIR: EIN NIÐURSTAÐA

Birtist í helgarblaði DV 10-13.01.14.
DVNýlega kynnti Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands, könnun um aðgengi að  heilbrigðisþjónustunni. Könnunin dregur upp  ógnvekjandi mynd og verðskuldar mikla umfjöllun.  Í henni  kemur fram að efnalítið fólk veigrar sér í auknum mæli að leita til heilbrigðisþjónustunnar vegna kostnaðar. Fátækt fólk á Íslandi er með öðrum orðum nauðbeygt til að skjóta heimsóknum til læknis á frest vegna peningaleysis!

Slæmt fyrir sjúkling og samfélag

Í viðtölum við fjölmiðla sagði Rúnar Vilhjálmsson,  að ljóst væri að ekki væri einvörðungu um það að ræða að fólk frestaði aðgerðum sem kalla mætti léttvægar heldur ætti þetta einnig við um fólk sem stríddi við alvarleg veikindi. Þetta minnir okkur á, sagði prófessorinn, að þegar það gerðist að kostnaðarþátttaka sjúlkinga ykist þá hefði það í för með sér mikil heilsufarsleg og félagsleg áhrif. Fyrir einstaklinginn væri þetta að sjálfsögðu skaðlegt en einnig fyrir samfélagið því ef ekki væri leitað lækninga í tæka tíð mætti búast við því að veikindin ágerðust og  yrðu enn alvarlegri fyrir vikið og þar með kostnaðurinn ef menn á annað borð vildu horfa til hans sérstaklega.
Í fyrrnefndri könnun kemur fram að hlutfall þeirra sem fresta því að leita sér lækninga hefur hækkað mikið á síðustu árum.

Aukin kostnaðarþátttka sjúklinga

Þetta rímar við aðra mikilvæga rannsókn sem unnin var á síðasta ári af hálfu Ingimars Einarssonar, sérfræðings í heilbrigðismálum, fyrir Krabbameinsfélagið, en þar kom fram að tuttugu prósent - fimmtungur - af heildarkostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins á síðasta ári hafi komið úr vasa sjúklinga. Hlutfallið hafi hækkað jafnt og þétt um nokkuð langt skeið. Ingimar sagði við kynningu á skýrslu sinni í september sl.  að ljóst væri að efnahagur sjúklinga muni að óbreyttu ráða æ meiru um sjúkdómsmeðferð ef ekki verði snúið af þessari óheillabraut. Var hann ómyrkur í máli líkt og Rúnar Vihjálmsson nú og sagði íslenska heilbrigðiskerfið að hruni komið.  

Öryrkjar veigra sér við að leita til læknis

Það er vægast sagt alvarlegt þegar rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að fátækasti hluti þjóðarinnar getur ekki nýtt sér heilbrigðisþjónustu vegna þess hve kostnaðarsöm hún er orðin einstaklingunum.
Fram kom í kynningu Rúnars Vilhjálmssonar á fyrrnefndri könnun Félagsvísindastofnunar að árið 1998 hafi hlutfall þeirra sem frestaði þess að leita læknis verið um 24 prósent, en hlutfallið hafði lækkað tímabundið niður í tæp 22 prósent í þenslunni árið 2006. Í fyrra var hlutfallið hins vegar komið upp í 32 prósent, sem þýðir að þriðji hver Íslendingur neitaði sér um nauðsynlega læknisþjónustu. Samkvæmt könnuninni er hlutfallið hæst meðal öryrkja, en tæpur helmingur þeirra neitaði sér um nauðsynlega þjónustu í fyrra. Hlutfallið er einnig hátt meðal einhleypra, námsmanna, grunnskólamenntaðra, lágtekjufólks og kvenna.


Vilja græða á veikindum

Auðvitað er það svo aftur áhyggjuefni að með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar eru fjárfestingarspekúlantar að nýju komnir á kreik til að gera heilbrigðiskerfið að féþúfu. Með því móti yrði kerfið ávísun á enn meiri mismunun auk þess sem heildarkostnaður kerfisins ykist til muna. Það sýnir reynslan erlendis frá. Enda kom í ljós í  könnun Félagsvísindastofnunar að í landinu er afgerandi stuðningur við opinberan rekstur heilbrigðisþjónustunnar og að hverfandi hlutfall vill einkarekið kerfi.

Heilbrigðiskerfið límir okkur saman

Ef við látum það gerast að landsmenn hætti að búa við sambærilega heilbregiðsþjónustu og að efnahagur komi til með að ráða því hvort fólk fær yfirleitt bót sinn meina, þá er það öruggt mál að þar með væri límið horfið sem  festir okkur saman í einni heild sem við köllum samfélag.

Fréttabréf