Fara í efni

ÞÁ FENGJU ORÐ ÞEIRRA FJAÐURVIGT

Bjarni Ben og Þorsteinn Víglunds
Bjarni Ben og Þorsteinn Víglunds

Nú leikur allt á reiðiskjálfi í fréttatíma eftir fréttatíma vegna verðhækkana. Allt er sett undir sama hatt, komugjöld á heilsugæslu, verð á kjötvöru og súkkulaði.

Það er hárrétt ábending hjá framkvæmdastýru Starfsgreinasambandsins í sjónvarpsfréttum nýlega, að hækkun á komugjöldum innan heilsugæslunnar rími illa við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um verðstöðugleika og yfirlýst markmið aðstandenda nýgerðra kjarasamninga.

Auðvitað á ekki að svara auknum tilkostnaði  innan heilbrigðisþjónustunnar með því að taka fleiri krónur úr vasa sjúklinga heldur á að auka framlag úr sjóðum samfélagsins til heilsugæslunnar. Það má að sjálfsögðu aldrei horfa framhjá því að frysting tekjustofna opinberrar þjónustu hefur í för með sér skerta þjónusta og/eða fækkun starfsfólks. þetta er veruleikinn eftir mikinn niðurskurð á undangengnum árum.

Á markaði vöru og þjónustu þarf líka að greina á milli þess sem óhjákvæmilegt er að hækka og hins sem byggir á tilraunum seljanda vöru og þjónustu til að auka eigin hagnað - taka meira til sín.

Dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, allar götur frá því í vor sátu flestir þeir aðilar sem nú taka mestu bakföllin vegna verðhækkana, þegjandi hjá þegar eigendum kvóta voru greiddir MILLJARÐAR í arð og  á meðan fréttir bárust af stórfelldum launahækkunum hátekjufólks. Ekki var fjármálaráðherra þá kallaður til að býsnast í fréttatímum, ekki heldur framkvæmdastjóri SA. Ekki urðum við heldur vör við að þessir aðilar reyndu að koma hneykslan á framfæri. Enda engin hneykslan ekki til staðar! Þeim fannst þetta allt í góðu lagi.

Öðru máli gegnir um ýmsa talsmenn Starfsgreinasambands ASÍ,  BSRB  og fleiri samtaka sem talað hafa um nauðsyn kjarajöfnunar í þjóðfélaginu. Þetta fólk hefur verið sjálfu sér samkvæmt.

Kjarajöfnun verður ekki tryggð með því að slátra taxtalauanakerfi opinberra starfsmanna. Ef það kerfi verður eyðilagt með því að heimila þar ekki hækkanir og leiðréttingar þá er eitt víst, að ekki  myndi draga úr misrétti hjá hinu opinbera. Þvert á móti þá myndi ójöfnuður þar stóraukast. Þetta kennir reynslan. Kröfur kennara, sjúkraliða, slökkviliðsmanna og læknaritara og veðurfræðinga eru því í reynd kröfur um jöfnuð í kjaraumhverfinu.

Kjarajöfnun felst í því að semja um að kjarabilið megi aldrei verða meira en tiltekið hlutfall. Ég hef margoft nefnt  einn á móti þremur. Ef sá hæsti er með 900 þúsund, þá yrði sá lægsti með 300 þúsund. Ég veit að mörgum finnst þetta of mikill munur og í sjálfu sér finnst mér það líka. En þetta væri góð byrjun í kerfi þar sem kjarabilið er miklu meira. Það vita helstu hneykslunarspesíalistar þjóðarinnar í verðlagsmálum þessa dagana, því sjálfir eru þeir með miklu meira en 900 þúsund krónur á mánuið í fastar tekjur. Og eru lægstu tekjurnar þó enn undir 200 þúsundum.

Alltaf til góðs að líta í eiginn barm. Fréttamenn gætu hjálpað upp á með því að sjá til þess að viðmælendur þeirra gerðu nákvæmlega það. Sérstaklega þegar rætt er um kjaramálin. Það mætti setja á skjáinn upplýsingar um kjör viðkomandi, til dæmis fjármálaráherrans og framkvæmdastjóra SA. Orð þeirra fengju þá aðra vigt. Ekki endilega þungavikt. Kannski fjaðurvigt.