Fara í efni

SIÐLAUSIR AULAR

GARY BECKER - LÍFFÆRASALA
GARY BECKER - LÍFFÆRASALA

Gary S. Becker hefur sannað að hægt er að fá Nóbelsverðlaun í hagfræði þótt menn séu aular og siðlausir í ofanálag. Visir.is segir frá nýlegu framlagi þessa Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði til samfélagsumræðunnar. Í pistli í Wall Street Journal sem hann skrifar ásamt og Julio J. Elias, öðrum hagfræðingi, er reynt að sannfæra okkur um ágæti þess að líffæri gangi kaupum og sölum á markaði líkt og hverjar aðrar markaðsvörur.
Í frásögn á vísir.is (sem byggir á grein þeirra félaga í Wall Street Journal) segir: Hagfræðingarnir benda á að margir leggist gegn slíku fyrirkomulagi vegna þess að það feli í sér sölu fólks á líkamshlutum úr sjálfu sér. Mörgum þyki það siðlaust. Að þeirra mati stendur valið hins vegar á milli þess að láta fjölda fólks kveljast og deyja árlega eða heimila fólki að selja úr sér líffæri og bæta þannig lífsgæði og lífslíkur annarra."Sjá nánar: http://visir.is/vilja-ad-folk-geti-selt-ur-ser-nyrun/article/2014140118866

Hagfræðingarnir segja að vissulega séu fátækir líklegri til að selja úr sér líffærin en hinir efnameiri en á endanum muni allir hagnast! Þetta minnir á umræðu hér á landi í byrjun níunda áratugarins, þegar frjálshyggjubylgjan fór að rísa, en þá kvað einn frjálshyggjupostulinn upp úr með hve prýðileg hugmynd það væri að koma á laggirnar markaði fyrir börn. Í ríkum löndum væri tiltölulega fátt um börn borið saman við fátæku ríkin. Þar væru börnin mörg en litlir peningar. Þannig að sölumarkaður með börn myndi gagnast öllum! Hinir fátæku fengju peninga, hinir börnin.  

Baltasar Kormákur gerði sína mögnuðu mynd, Inhale, árið 2009 sem fjallaði um sölu á líffærrum; mynd sem vakti áleitnar spurningar um þetta efni svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/inhale-baltasars-kormaks

Eigum við ekki að halda okkur við það að þeir sem vilji taka börn í fóstur geri það án greiðslu fyrir og sama gildi um líffærin. Þarna eiga markaðslögmálin ekki heima!