SAGA EIMSKIPAFÉLAGSINS: SPEGILL Á SAMFÉLAG

Eimskip 100 ára

Í gær var þess minnst að eitt hundrað ár eru liðin frá stofnun Eimskipafélags Íslands. Fróðlegt er að fylgjast með umfjöllun um þessi tímamót.

Á afmælisdaginn segir Gylfi Sigfússon, núverandi forstjóri í Eimskips í viðtali við Morgunblaðið: "Við teljum að við séum enn óskabarn þjóðarinnar, erum það flutningafélag sem haldið hefur tryggð við Ísland og erum stolt af því að kalla okkur íslenskt skipafélag."

Forstjórinn segir að hlutverk félagsins taki eðlilega breytingum. Það sé ekki lengur að koma í veg fyrir einangrun þjóðarinnar einsog verið hafi í upphafi, heldur nýta þau tækifæri sem gefast, einkum á Norður Atlantshafi á næstu árum og áratugum.

Gumundur Magnússon, sagnfræðingur, sem ritað hefur bókina,  Eimskipafélag  Íslands Í 100 ár, segir í grein í Morgunblaðinu í gær að greinilegt sé að stjórnendur Eimskipafélagsins leggi "nú mikla áherslu á að hefja til vegs gömul gildi og að byggja á upprunalegu meginhlutverki  sem það var stofnað til að sinna 1914, flutningastarfseminni."

Allt er þetta athyglisvert. Það er að vísu ekki rétt hjá forstjóranum að Eimskipafélagið  hafi alla tíð haldið tryggð við íslenskt samfélag. Í offorsi gróðaáranna, í aðdraganda efnahagshrunsins, sögðu þáverandi eigendur að sá tími væri liðinn að Eimskipafélagið væri skipafélag heldur væri það nútímavætt fjárfestingafyrirtæki, eða grúppa eins og það var kallað, yfirleitt á ensku, GROUP.

Eftir að Björgólfur Thor Björgólfsson komst yfir Eimskipafélagið árið 2003, sagði hann á hátíðarsamkundu þar sem hann "gaf" Háskóla Íslands peningagjöf, svokallaðan háskólasjóð innan félagsins,  sem Vestur- Íslendingar höfðu fært "óskabarni þjóðarinnar",  við stofnun fyrir hundrað árum, því þeir vildu að Íslendingar ættu skipafélag og háskóla : ""Hingað til hefur sjóðurinn verið með fjármuni sína bundna í eða í vörslu skipafélags. Það félag hefur hins vegar tekið miklum umskiptum að undanförnu, enda erum við núna orðin fjárfestingarfélag, sem hefur það að meginmarkmiði að fjárfesta erlendis."  
sjá nánar: http://ogmundur.is/news.asp?ID=655&type=one&news_id=2073

Eftir gegndarlaust fjárfestingarsukk og eigendaskipti riðaði félagið til falls og komst í eigu bandaríska fjárfestingarsjóðsins Yucaipa sem skráði það af markaði. Í seinni tíð hefur íslenskt fjárfestingarfjármagn náð hlutdeild í eignarhaldinu að nýju, þar á meðal lífeyrissjóðir.

Það hljómar eins og lygasaga að rifja upp það sem fram fór í ranni Eimskipafélagsins á tíunda áratugnum og síðan á fyrsta áratug nýrrar aldar - þegar verið var að leggja af siglingar og gera fjárfestingargróðann að leiðarljósi í rekstri þessa gamlagróna félags. Það er líka ótrúlegt að fylgjast með því hve sljóir og meðvirkir fjölmiðlarnir voru.  Allt samélagið var meira og minna andvaralaust, dásamaði gjafmildi eigenda Eimskipafélagsins þegar gjafafé aldamótakynslóðarinnar var afhent; fjármunir sem samkvæmt skilmálum áttu að renna til Háskóla Íslands.

Í gróðærinu voru fjölmiðlar nær undantekningarlaust í klappliðinu, ómeðvitaðir um samhengi fortíðar og samtíðar. Það rifjast upp þegar síðustu tveir áratugirnir í sögu Eimskipafélagsins koma til skoðunar. Að því leyti er saga Eimskipafélagsins ágætur spegill á tíðarandann. Í sögu félagsins sjáum við viðhorf tveggja aldamótakynslóða, viðhorfin á öndverðri 20. öldinni og hinni 21. 

Yfirlýsingar núverandi forsvarsmanna Eimskipafélagsins gætu gefið tilefni til að ætla að menn sætti sig ekki lengur við "söguleysið"  og viðurkenni að farsælla sé að skilgreina markmið félagsins með hliðsjón af því sem gagnast okkur sem samfélag. Það væri góðs viti.

Hér eru nokkur dæmi sem ég hvet lesendur til að líta á auk þess sem áður er vísað til: 

http://ogmundur.is/annad/nr/2350/
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/1817/
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/1808/
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/1803/
http://ogmundur.is/annad/nr/3392/
http://ogmundur.is/annad/nr/3561/
http://ogmundur.is/fra-lesendum/nr/1804/

Fréttabréf