ALVÖRUÞRUNGIN VARNAÐARORÐ

Rúnar Vilhj og Ingimar Ein
Rúnar Vilhjálmsson,

prófessor við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands segir þá þróun sem átt hefur sér stað í heilbrigðismálum þjóðarinnar sé alvörumál og mikið áhyggjuefni. Efnalítið fólk veigri sér í auknum mæli að leita til heilbrigðisþjónustunnar vegna kostnaðar. Fátækt fólk sé nauðbeygt til að skjóta heimsóknum til læknis á frest vegna peningaleysis: "Þeir sem eru að fresta, þeir eru ekki bara að fella niður ónauðsynlegar eða léttvægar heimsóknir. Þeir sem eiga við alvarleg veikindi að stríða fresta líka vegna kostnaðar, þannig að þegar það verður almenn þróun í átt til aukins kostnaðar sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni, þá hefur það breið áhrif."  
Þetta segir Rúnar Vilhjálmsson í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins. Til umfjöllunar er könnun Félagsvísindastofnunar sem unnin var að undirlagi Rúnars en þar kemur fram að þriðji hver Íslendingur frestaði nauðsynlegri læknisþjónustu á síðasta ári þrátt fyrir að telja sig þurfa á þjónustunni að halda. Hlutfallið hafi hækkað mikið á síðustu árum. (sjá nánar: http://www.ruv.is/frett/thridjungur-frestadi-laeknisskodun )
Þetta rímar við aðra mikilvæga rannsókn sem unnin var á síðasta ári af hálfu Ingimars Einarssonar, sérfræðings í heilbrigðismálum, fyrir Krabbameinsfélagið, en þar kom fram að tuttugu prósent - fimmtungur - af heildarkostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins á síðasta ári hafi komið úr vasa sjúklinga. Hlutfallið hafi hækkað jafnt og þétt um nokkuð langt skeið. Ingimar sagði við kynningu á skýrslu sinni í september sl.  að ljóst væri að efnahagur sjúklinga muni að óbreyttu ráða æ meiru um sjúkdómsmeðferð ef ekki verði snúið af þessari óheillabraut. Var hann ómyrkur í máli líkt og Rúnar Vihjálmsson nú og sagði íslenska heilbrigðiskerfið að hruni komið.  (sjá nánar: http://ogmundur.is/annad/nr/6819/ )
Undir það skal tekið að eitthvað verulega alvarlegt hefur gerst þegar fátækasti hluti þjóðarinnar getur ekki nýtt sér heilbrigðisþjónustu vegna þess hve kostnaðarsöm hún er orðin einstaklingunum.
Auðvitað er það svo aftur áhyggjuefni að með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar er bisnissfólkið að nýju komið á kreik til að gera þetta kerfi sér að féþúfu. Með því móti yrði kerfið ávísun á enn meiri mismunun auk þess sem heildarkostnaður kerfisins ykist til muna. Það sýnir reynslan erlendis frá. Enda kom í ljós í tilvitnaðri könnun Félagsvísindastofnunar að í landinu er afgerandi stuðningur við opinberan rekstur heilbrigðisþjónustunnar og að hverfandi hlutfall vill einkarekið kerfi. (sjá nánar um bisnissinn: http://ogmundur.is/stjornmal/nr/6935/ )

Fréttabréf