Fara í efni

MUNUM AÐ GREIÐA IÐGJÖLDIN!

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Mogunblaðsins 29.12.13.
Slysavarnafélagið Landsbjörg styður samfélagið. Og samfélagið styður Slysavarnafélagið Landsbjörg. Þetta verður að vera jafna til að dæmið gangi upp.

Öll viljum við að jafnan gangi upp. Ég þekki ekki þann Íslending sem ekki kann að meta að verðleikum afreksverk Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Alltaf þegar slys henda eða náttúruhamfarir eða hvers kyns vá ber að höndum, þá má alltaf reikna með björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á vettvangi - opinberum viðbragðsaðilum, lögreglu og slökkviliði til aðstoðar. Stundum eru það slysavarnasveitirnar sem bera björgunarstarfið uppi. Ef þeirra nyti ekki við - og hefði ekki notið við  - hefði margt farið á annan og verri veg á hættustundu.

Aldrei hefur verið beðið um endurgjald. Þegar kaldir og þreyttir björgunarsveitarmenn hafa dögum og sólarhringum saman leitað að týndu fólki eða þegar unnin hafa verið önnur björgunarstörf, minnist ég þess ekki að fram hafi verið reiddur reikningur. Slíkt hefur aldrei verið orðað að því er ég best veit. Enda allt unnið í sjálfboðastarfi. Ef meta ætti sjálft björgunarstarfið til fjár söfnuðust glatt upp himinháir reikningar. Eða þegar unnið er að því í hverri frístund sem gefst að aðlaga tækjakost íslenskum aðstæðum. Þar eru ófá dagsverkin - að ekki sé minnst á þrotlausar æfingar. Enginn gengur á fjöll við erfiðustu aðstæður án þjálfunar.

En þótt allt sé gefið þá er starfsemin ekki útgjaldalaus. Tækjakosturinn er dýr. Húsnæði þarf að vera til ráðstöfunar - skýli yfir tækin og þak yfir starfsemina. Þetta kostar peninga.

Þessir fjármunir safnast með ýmsum hætti. Eitthvað kemur úr sjóðum samfélagsins. Ekki er það þó mikið. Talsvert fé safnast til starfsins í gegnum happdrætti og spilakassa. Slysavarnafélagið Landsbjörg er undir regnhlíf Íslandsspila.  Ekki telst ég til áhugamanna um spilavélar. Hef reyndar beitt mér fyrir því sem kalla má ábyrga spilastefnu en talsvert er í land að þannig verði búið um spilamarkaðinn hér á landi að hann falli undir slíka skilgreiningu. En það er önnur saga - en þó ekki alveg. Allra fjármuna þarf að afla á ábyrgan hátt. 

En ef við erum á þeirri skoðun að setja beri þessari fjármögnunarleið skorður þá hljótum við þeim mun heldur að leggja áherslu á aðrar leiðir til að styrkja fjárhaginn. Ein slík leið býðst okkur þessa dagana, nefnilega að kaupa flugeldana okkar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Með fullri virðingu fyrir öllum þeim ágætu samtökum sem nú selja flugelda í fjáröflunarskyni þá finnst mér að áramótasalan eigi að heyra Slysavarnarfélaginu Landsbjörg til. Mér finnst þetta nánast vera eins og að greiða iðgjald til þessa félags sem við öll viljum hafa til staðar, sterkt og kröftugt.

Slysavarnafélagið Landsbjörg er nefnilega félagið okkar allra og það er með mikilli ánægju að ég banka þar upp á hvern einasta gamlársdag að kaupa stjörnuljós og blys að ógleymdum flugeldunum til að lýsa upp himininn í kveðjuskyni við liðið ár og til að fagna nýju ári - að þessu sinni árinu 2014, sem ég óska okkur öllum til hamingju með um leið og ég minni okkur öll á að greiða iðgjöldin!
Það gerum við með því að kaupa stjörnuljósin hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Ég færi öllum óskir um gleðilegt ár með þökk fyrir það sem liðið er.