KAÞÓLSKA KIRKJAN SÝNI SANNGIRNI
Birtist í DV 20.12.13.
Það var góð
ákvörðun árið 2007 af hálfu ríkisstjórnar Geirs H. Haarde að hefja
rannsókn á illri meðferð á vistheimilum fyrir börn og unglinga. Það
var líka rétt ákvörðun að lögfesta greiðslu sanngirnisbóta vegna
brota sem framin höfðu verið á börnum og Jóhanna Sigurðardóttir
sýndi brotaþolum viðeigandi virðingu með því að biðja þá
afsökunar úr ræðustól Alþingis.
Engar efasemdir
Sjálfur hafði ég upphaflega ákveðnar efasemdir um greiðslu sanngirnisbóta. Vissi ekki til hvers það leiddi, hvort það myndi ýfa upp gömul sár og jafnval leiða til meira hugarvíls í stað þess að sefa og sætta. Ég er kominn á gagnstæða skoðun. Sanngirnisbæturnar gera nefnilega tvennt í senn: Þótt aldrei sé hægt að meta skaðann til fjár þá sýna þessar bætur í verki að afsökunarbeiðni er meira en orðin tóm. Í annan stað eru þær tilefni fyrir hlutaðeigandi einstakling til að horfast í augu við liðinn tíma með aðstoð frá fagfólki og samfélaginu sem viðurkennt hefur misgjörðirnar.
Mælistika á réttlætið
Hvað sem því líður, þá er veruleikinn sá að sanngirnisbæturnar
eru orðnar eins konar mælistika, þar sem kvarðinn eru krónur og
aurar; mælikvarðinn á sanngirni samfélagsins.
Það er nákvæmlega þarna sem Kaþólska kirkjan bregst. Í
Landakotsskóla, sem verið hefur undir handarjaðri Kaþólsku
kirkjunnar, voru framin mjög alvarleg brot gegn börnum. Kaþólska
kirkjan má eiga það að hún lét rannsaka málið - að vísu eftir
nokkurn eftirrekstur. En síðan kom að hinni raunverulegu
viðurkenningu á eigin brotum, að bregða mælistikunni góðu á viljan
til "sanngirni".
Í bréfi sem brotaþolum hefur verið skrifað víkst kirkjan undan því
að viðurkenna ofbeldið en býður krónur sem eru svo fáar að tölu, að
álitamál þykir að rétt sé að taka við þeim.
Ekki brotaþola að krefjast bóta
DV hefur haldið málstað þessara einstaklinga á lofti. Það er
vel. Annar fjölmiðill sem á mikið lof skilið í þessari umræðu er
Kastljós Ríkisútvarpsins og einnig Fréttatíminn sem greindi
ítarlega frá málstað þeirra sem urðu fyrir ofbeldi af hálfu þjóna
Kaþólsku kirkjunnar. Nú skal það tekið sérstaklega fram að
fórnarlömbin úr Landakotsskóla hafa ekki gert kröfu um fjárbætur að
því ég best veit. Enda er það ekki þeirra að gera það, heldur okkar
sem samfélags.
Hárrétt hjá menntamálaráðherra
Þegar málið kom til umræðu á Alþingi fyrir fáeinum dögum var
menntamálaráðherra spurður um það hvað honum þætti um
málsmeðferð Kaþólsku kirkjunnar. Hann tók undir það sjónarmið að
bætur sem Kaþólska kirkjan byði væru skammarlega lágar. Hvað varðar
hugsanlega aðkomu ríkisins, sagði hann réttilega, að ábyrgðin
hvíldi hjá Kaþólsku kirkjunni og henni bæri að endurskoða afstöðu
sína.
Þetta er að sjálfsögðu hárrétt hjá Illuga Gunnarssyni,
menntamálaráðherra.
En ...
Eftir stendur að spyrja hvað skuli gert ef Kaþólska
kirkjan neitar að sýna sanngirni í málinu. Mín skoðun er að þá eigi
ríkið ekki annarra kosta völ en hlutast til um málið. Það mun kosta
lagabreytingar, einfaldar þó, og yrði það væntanlega á hendi
innanríkisráðherra að hlutast til um þær.
Ef ekkert hreyfist í málinu á fyrstu vikum komandi árs mun það
aftur verða tekið upp á Alþingi. Eitt er víst, þessi umræða mun
halda áfram þar til ásættanleg niðurstaða fæst. Það má Kaþólska
kirkjan á Íslandi vita málið leysist með aðgerðaleysi og
þögn.