BEÐIÐ UM SANNGIRNI!
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15.12.13.
Ofbeldi gegn börnum hefur eflaust alltaf tíðkast í
einhverjum mæli innan og utan heimilis. Á síðari árum er allt
samfélagið orðið meðvitaðra um slíkt böl og leitar ráða til að
uppræta það. Það varð mörgum áfall að uppgötva að inni á ýmsum
stofnunum þar sem börn voru vistuð, beinlínis til þess að búa þeim
til örugga tilveru, viðgekkst ill meðferð og sums staðar
skefjalaust ofbeldi, ekki aðeins af hálfu annarra ungmenna heldur
einnig einstaklinga úr röðum starfsfólks. Því fer fjarri að þetta
hafi verið algilt en því miður eru dæmin alltof mörg.
Það mun hafa verið í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haardes að ákveðið
var að horfast í augu við liðna tíð að þessu leyti og finna leiðir
til að milda skaðann sem unnin hafði verið á sálarlífi fjölda barna
og unglinga í stofnunum á vegum samfélagsins. Á grundvelli
rannsóknarvinnu voru síðan ákveðnar bætur sem kallaðar hafa verið
sanngirnisbætur. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi
forsætisráðherra, bað fórnarlömb ofbeldis síðan formlega afsökunar
úr ræðustól Alþingis fyrir hönd ríkisvaldsins.
Margir höfðu blendnar tilfinningar gagnvart þeirri aðferð að greiða
bætur, því þótt hún hefði sína ótvíræðu kosti hafði hún líka sína
galla. Þannig varð til hvati hjá þeim sem höfðu verið vistaðir í
heimavistaskólum eða stofnunum að rýna í allt sem hefði
misfarist í æsku þeirra og meta skaðann til fjár.
En jafnframt var þarna komið tilefni til að takast á við sáran og
þungbæran vanda. Og þegar upp er staðið tel ég að sú nálgun, að
greiða sanngirnisbætur, hafi verið til góðs. Í þeim er fólgin
handföst viðurkenning á samfélagslegri ábyrgð á meðferð sem í
mörgum tilvikum fól í sér gróf brot á mannréttindum.
Eftir því sem á leið myndaðist breið sátt um þessar bætur og í
framhaldinu urðu þær eins konar mælikvarði á sanngirni
samfélagsins. Samanlagt má ætla að sanngirnisbætur komi til með að
ganga til hátt þúsund einstaklinga og nema um tveimur milljörðum
króna.
Nú bregður svo við að kaþólska kirkjan á Íslandi ætlar seint og um
síðir að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ekki gekk það sjálfkrafa
fyrir sig að kaþólska kirkjan tæki við sér. Þótt seint væri þá
skipaði kirkjan rannsóknarnefnd sem skilaði áliti þar sem ég ætla
að staðfest hafi verið margt það sem alþjóð þekkir af frásögnum
einstaklinga sem urðu fyrir ofbeldi í Landakotsskóla á sínum
tíma.
Hvað um það, forsvarsmenn kaþólsku kirkjunnar tóku skýrslu sína
ekki alvarlegar en svo að þeir tóku það sérstaklega fram gagnvart
fórnarlömbum að engin sekt væri viðurkennd en engu að síður boðin
peningaupphæð til að ljúka málum. Einstaklingur sem beittur var svo
ljótu ofbeldi sem lítið barn að orð fá því vart lýst, átti að fá
170 þúsund krónur í "sanngirnisbætur". Hann afþakkaði þessa
sýndarupphæð og hafði reyndar jafnframt á orði að hann hefði
aldrei ásælst peninga. Í viðtali við DV segir þessi hugrakki maður:
"Af því að peningarnir skiptu ekki máli. Ég bað bara um að ég
yrði persónulega beðinn afsökunnar. Ég vildi að daginn eftir sættir
myndi biskupinn standa upp í hámessu og biðja mig, Ísleif
Friðriksson, afsökunar á ofbeldinu og taka utan um mig. Eins og
fólk biður annað fólk afsökunar. Eins og honum þætti sárt að vita
að ég hefði lent í þessu. Eins og það skipti máli."
Nú er það svo að þótt þessi einsataklingur hafi aldrei krafist fjár
þá stendur krafan ekki upp á hann heldur okkur sem samfélag að sjá
til þess að hann sitji við sama borð önnur börn sem sættu viðlíka
ofbeldi. Þess vegna þarf ríkið að grípa hér inn í. Málið var rætt á
Alþingi í vikunni sem leið. Menntamálaráðherra sýndi því góðan
skilning. Það er góðs viti.