Fara í efni

Á YSTU NÖF

Urriðafoss
Urriðafoss

Í Lundúnum var í vikunni rætt um hugsanlega lagningu flutningsstrengs fyrir raforku frá Íslandi til Bretlands. Mér þótti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ganga út á ystu nöf þegar skilja mátti á máli hans að hann hvetti erlenda fjárfesta til til að leggja umræddan rafmagnsstreng - það væri góð fjárfesting.
Mér létti þegar forsetinn botnaði hugsun sína með þeim orðum að þetta gengi þó aldrei nema að um framkvæmdina skapaðist víðtæk samstaða og sátt á Íslandi.
Ég leyfi mér að efast um að sú sátt sé fyrir hendi. Það er nefnilega ekki nóg að leggja strenginn. Það þarf líka að virkja og þar stendur hnífurinn í kúnni. Virkjunar- og stóriðjusinnar hafa verið að færast í aukana upp á síðkastið. Gott ef Alþýðusamband Íslands var ekki að hvetja til þess að sex virkjunarkostir í biðflokki verði færðir yfir í virkjunarflokk hið snarasta. Eða voru það Samtök atvinnulífsins? Þetta vill renna saman í minninu en ASÍ og SA eru sem kunnugt er helstu áhugaaðilar um stóriðju og stórvirkjanir og hafa talað nánast sem eineggja tvíburar um það málefni.
Bráðlæti í virkjanagerð er að mínu mati byggt á skammsýni. Við eigum ekki að fórna dýrmætum náttúruperlum til rafmagnsframleiðslu í miklum mæli hvort sem er til stóriðju eða útflutnings. Slíku á því ekki að gefa undir fótinn.
Og síðan er það hitt: Fjárfestar eiga ekki að ráða för. Það á ekki undir neinum kringumstæðum að gefa til kynna að þeir hafi ákvörðunarvald á hendi.
Þessa umræðu á því ekki að fara með út fyrir landsteinana áður en málin eru rædd í þaula heima fyrir. Þess vegna var það gott að forseti  Íslands áréttaði að víðtæk samstaða um málið á Íslandi  væri forsenda þess að fjárfestar hreyfðu sig.
Sjálfum finnst mér rétt að benda þeim afdráttarlaust á að íslenskar náttúruperlur séu ekki falar nú um stundir.