Fara í efni

WIN WIN?

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 20.10.13.
Ætli flest okkar hafi ekki setið fundi eða námskeið þar sem okkur er kennt að sjá aðeins  það jákvæða í öllum aðstæðum. Það sé ekki til sú deila að báðir málsaðilar geti ekki fundið einhvern ávinning í niðurstöðu sem þeir komist að í sameiningu -þar sem báðir aðilar og helst allir vinni - win win, eins og það heitir á glærunum.
Síðan eru það hinir framtakssömu, sem ganga enn lengra og  fara í háskóla - oft á fullorðinsaldri -  til að gerast sérfræðingar í jákvæðni og win win hugmyndafræði - og fá gráðu því til staðfestingar.
Á þessum  háskólakúrsum lærir fólk, að sögn, að hugsa „út fyrir boxið", sjá bara verkefni, engin vandamál, einsog það heitir. Og í pólitíkinni læra menn í framhaldinu af öllu þessu að vera lausnamiðaðir og gera alltaf það besta mögulega úr öllu góðu. Helst eigi að afnema átakastjórnmál, kannski stjórnmál alveg enda séu þau leiðinleg og niðurdrepandi. Ef stjórnmálamenn aðeins settust niður og spjölluðu saman yfir góðum kaffibolla þá yrði allt gott.
Í sjálfu sér er þetta allt mjög jákvætt og gott og aðdáunarvert þótt ég neiti því ekki að stundum hefur mér þótt þessi yfirþyrmandi lausnamiðaða  jákvæðni fyrir utan boxið, geta keyrt um þverbak. Það er vegna hins hola hljóms sem iðulega má greina í öllu win win talinu. Ekki síst í stjórnmálum.
Stundum vill maður nefnilega fá að vita afdráttarlaust hvað það er sem stjórnmálamenn standa fyrir og að þeir séu tilbúnir að berjast fyrir tiltekin málefni, inni í boxinu ef því er að skipta, ekkert fljótandi eða sérstaklega lausnamiðað win win fyrir gagnaðilann ef hann er með slæman málstað. Maður vill fá að vita hvort stjórnmálamaður er tilbúinn að standa og ekki síður falla með málstað sínum. Vissulega vill maður  að hann sé laus við kreddu og vanahugsun og temji sér víðsýni, en aldrei til að svíkja grunngildin.
Alltaf þarf að spyrja um þau: Vill stjórnmálamaðurinn að markaðurinn leysi allan vanda, jafnvel þótt það kosti ójöfnuð; þess vegna sé í lagi að draga úr félagslegri aðstoð eins og Áslaug Friðriksdóttir, Sjálfstæðisflokki  talar nú opinskátt fyrir. Allt hreint og beint hjá Áslaugu!
Eða er stjórnmálamaðurinn að berjast fyrir útigangsmenn og fyrir kjarajöfnuði og tekjulítið fólk á leigumarkaði?  Það gerir Þorleifur Gunnlaugsson, varaborgarfulltrúi VG . Hann hefur verið nánast einn um að tala máli þessa fólks. Hann hefur sagt hátt og snjallt við stjórnendur Reykjavíkurborgar, að þeir séu ekki að standa sig í að auka framboð á félagslegu húsnæði. Hann er virðingarvert dæmi um stjórnmálamann sem aldrei veigrar sér við að taka þátt í átakastjórnmálum, í baráttu fyrir hönd þeirra sem troðið er á.
Til eftirbreytni er allt það fólk sem talar hreint út og kappkostar að vera málefnalegt, segja samherjum til syndanna, ekki síður en andstæðingum. Þar nefni ég  Guðmund Magnússon, formann Öryrkjabandalags Íslands sem hefur sýnt í verkum sínum hvað það er að vera góður forystumaður  í mikilvægum samtökum.
Með öðrum orðum, við þurfum víðsýnt fólk og samstarfsfúst, ekki þröngt og lokað. En framar öllu baráttufólk sem er sjálfu sér samkvæmt þótt það kunni að koma því sjálfu illa þegar vindarnir eru mótdrægir.  
Það fólk sem breytir samfélaginu er ekki endilega sigurvegarar augnabliksins heldur  - og ekki síður - hin sem þrauka með vindinn í fangið. Stjórnmálabarátta er barátta um tíðarandann; hvernig samfélagið hugsar og hver mörk það setur stjórnmálamönnum hverju sinni. Þá baráttu vinnur enginn endanlega en betra er að vita hvert maður er að halda í þeim eilífa slag.