Fara í efni

MEST Í HEIMI?

bodybild 3
bodybild 3

Ég hef stundum gantast með það að Íslendingar séu aldrei vissir um það hvort þeir væru 320 þúsund eða 320 milljónir. Því fylgja ákveðnir kostir að hugsa stórt. Minnimáttarkennd getur verið þrúgandi og niðurdrepandi. Stórhugur er hins vegar orkugefandi.
En þessu fylgja líka ákveðnar hættur. Stundum er talað um stórmennskubrjálæði. Ekki er það gott fremur en annað brjálæði.
Í aðdraganda hrunsins var það meira en svo að stórmennskubrjálæði gerði vart við sig með Íslendingum. Heita má að það hafi stýrt gjörðum margra stjórnmálamanna og ráðandi fólks í viðskiptalífi. Allt átti að verða stærst og mest í heiminum og reglulega var boðað til tímamóta á heimsvísu. Þannig nægði ekki að Ísland styddi við bakið á fjármálalífinu. Nei, Ísland átti að verða miðstöð fjármálakerfis heimsins!

Stærsta höfn í heimi!

Nú hefur þessi veiki, og það takmarkalausa dómgreindarleysi sem henni fylgir, tekið sig upp að nýju. Gríðarlegur fögnuður brýst út þegar okkur er sagt að í Finnafirði á Norðausturlandi verði hugsanlega reist stærsta umskipunarhöfn í heimi!
Ekki eru allir þessu markinu brenndir og var skrifuð lífleg en mjög yfirveguð frásögn af nýlegum borgarafundi í Vopnafirði þar sem þessi áform voru kynnt.  

Stjarnfræðilegar stærðir fyrir Ísland

Skrásetjari Vopnfirðinga var vel meðvitaður um þau áhrif sem  risahöfnin gæti haft: „Hún þarf að vera stór, mjög stór því eitt gámaskip flytur allt að 18 þúsund gáma og tekur annað eins í stað þeirra sem millilenda á hafnarbakka Finnafjarðar. Og þegar áætlað er að allt að 15% skipaflutninga Kínverja fari um höfnina er ljóst að verið er að tala um gífurlegar tölur, nánast stjarnfræðilegar fyrir 320 þúsund manna eylandið."(Sjá vefslóð að neðan.)
Ágætt væri að menn gaumgæfðu þetta allt vel.

Innflutt vinnuafl í stórum stíl

Umskipunarhöfn myndi vissulega gefa miklar skatttekjur. Hún myndi líka skapa atvinnu. Heldur betur! Hún myndi kalla á gríðarlegt flæði vinnuafls til Finnafjarðar, margfalt meira en er að finna á norðaustanverðu landinu og sennilega Íslandi öllu. Við yrðum að flytja inn mikinn fjölda fólks til að vinna við heimsins stærstu umskipunarhöfn. Kannski þarf heimurinn á þessu að halda. En Ísland? Þarf Ísland á þessu að halda? Ég hef mínar miklu efasemdir.

Andvaraleysi og seinagangur

Svo eru það gróðurhúsin. Alltaf hefur mér sviðið seinagangurinn í okkur sem förum með löggjafar- og framkvæmdavaldið í landinu að ívilna ekki á myndarlegan hátt ylræktargeiranum með hagstæðu rafmagnsverði og þess vegna lágum sköttum.
Mér koma í hug Flúðir og Hveragerði. Þar hefur margt gott verið gert og gæti orðið miklu betra.

Tuttugu fótboltavellir í Grindavík

Nú koma Hollendingar og segjast vilja setja sex þúsund milljónir króna í hundrað og fimmtíu þúsund fermetra gróðurhús við Grindavík. Þau munu verða á við tuttugu fótboltavelli og skapa 125 störf við að tína tómata og sjá um ræktun og pökkun fyrir Tesco verslunarkeðjuna í Bretlandi sem að sögn rekur 6300 verslanir þar í landi. Er þetta gott fyrir Ísland? Einnig þetta þarf að hugsa.
Verður þessi tómataræktun í samkeppni við tómatatínslumenn á Ítalíu? Þeir koma frá Afríku og Balkanskaga og segja þeir farir sínar ekki sléttar. Það er að segja þeir sem á annað borð eru til frásagnar.

Viðkvæmt og verðmætt land

Nú ber ekki að skilja mig svo að ég sé þessu endilega andvígur. Mér finnst einfaldlega að við þurfum að hugsa málin og þá aldrei gleyma því hve fámenn þjóð við erum og hve dýrmæt náttúruperla Ísland er. Það á við um samfélagið okkar líka. Það er viðkvæmt.
Ég er sannfærður um það að við eigum í atvinnulegu tilliti að hugsa á smæðina fremur en á stærðina. Það hentar okkur einfaldlega betur.

Stórstígar framafarir orðið í atvinnumálum Íslendinga

Síðan þurfum við að hugsa það í mikilli alvöru hvað raunverulega hefur áunnist á undanförnum árum með því að styðja skapandi greinar með fjárhagslegum stuðningi og í gegnum skattakerfið. Síðan hefur eitt tekið við af öðru og smám saman hefur farið að blómstra atvinnustarfsemi sem veitir miklum fjölda fólks vinnu, veltir tugum milljarða og skapar okkur gjaldeyri. Það mun stærsta gróðurhús í heimi líka gera eða heimsins mesta umskipunarhöfn. En hvað með fylgisfiskana?

Aftur í gamla hjólfarið?

Það skiptir máli hvernig forgangsraðað er í atvinnumálum þjóðarinnar. Spyrja þarf hvort við viljum stóriðju og stórkallalegustu lausnir sem völ er á eða hvort við viljum skapandi greinar, þróaða vinnslu hráefna okkar  og  margbreytileika í atvinnulífi. Á undanförnum árum hefur síðari kosturinn verið valinn  með góðum árangri. Það er dapurlegt til þess að hugsa að nú vilji menn aftur stefna ofan í gamla hjólfarið sem byggir á því að selja orku, aðstöðu og hráefni sem aðrir síðan vinna úr.
 
http://www.vopnafjardarhreppur.is/Frettir/nanar/7564/borgarafundur-um-finnafjord